Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:08:48 (4869)

2001-02-20 18:08:48# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í frv. kemur ekki fram að lagaráðið eigi að vera ráðgefandi því hlutverk þess er að setja samræmdar reglur um samningu lagafrv. Hins vegar á það að vera Alþingi og Stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar þess utan þannig að það er hlutverk lagaráðs að setja samræmdar reglur sem takmarka þá um leið getu þingmanna til að leggja fram frv. eða frelsi þeirra til að leggja fram frv. Ég held að þessu ákvæði þyrfti þá að breyta.

Þá er spurningin: Til hvers að vera með ráðgefandi lagaráð sem á að gefa ráð ef þingmenn eiga ekkert að fara eftir því? Ef þeir geta hvenær sem er vísað í stjórnarskrána og sagt: ,,Við erum óbundnir af þessum ráðum``? Þá gæti það hugsanlega nýst minni hlutanum í einhvern hasar á þingi til að klekkja á meiri hlutanum þannig að þingmaður sem flytur frv. sem nýtur meirihlutastuðnings á Alþingi gæti fengið framan í sig að það frv. út af ráðleggingu lagaráðsins standist ekki stjórnarskrá eða eitthvað því um líkt. Hverju erum við þá bættari ef þingmenn telja sig hafa stjórnarskrána sín megin til að leggja fram frv. og hlýða bara sannfæringu sinni sem allir þingmenn hafa, ekki bara stjórnarandstaðan eins og virtist vera við síðustu umræðu um öryrkjadóminn?