Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:53:44 (4883)

2001-02-20 18:53:44# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið að mörgu leyti góð og ítarleg. Ég treysti því að frv. fái góða og vandaða málsmeðferð í hv. allshn. Alþingis. Ekki síst í ljósi þess hvernig hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður allshn., tjáði sig um þetta mál áðan, þá trúi ég því og treysti.

Ég vil víkja örfáum orðum að ýmsu sem komið hefur fram í umræðunum í dag. Sérstaklega vil ég minnast á málflutning hæstv. forsrh. og hv. þm. Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, og velta því fyrir mér hver séu málefnaleg rök þeirra tveggja gegn þessu máli. Þau málefnalegu rök sem ég heyrði helst hjá þessum ágætu þingmönnum voru þau að frv. væri óskýrt, sérstaklega að 1. gr. frv. væri mjög óskýr vegna þess að ekki væri nákvæmlega farið út í það hvað lagaráðið ætti að gera. Þeir hafa velt upp spurningum og margir aðrir um það hvað gerist ef ekki er farið eftir ráðgjöf ráðsins. Það hefur jafnvel komið fram, a.m.k. af hálfu hæstv. forsrh., að hann telji slíkri skrifstofu mun betur komið fyrir innan Stjórnarráðsins, ef hún yrði á annað borð sett á stofn eða slíku ráði eða nefnd eða hvað við köllum það, og hann vildi gera lítið úr því að nokkur hætta væri á að slakari lagaleg ráðgjöf kæmi þaðan en ef þetta kæmi frá hinu háa Alþingi.

Ég heyrði ekki hv. þm. Halldór Blöndal og forseta Alþingis tjá sig nákvæmlega um þennan þátt málsins. Má vel vera að ég hafi ekki heyrt rétt. En ég heyrði hann a.m.k. ekki tjá sig nákvæmlega um þetta, hvort hann hefði trú á því að þessu væri betur komið fyrir undir Stjórnarráðinu ef á annað borð væri sett á stofn slíkt apparat. Reyndar trúi ég því ekki að svo sé komið fyrir hv. Alþingi að forseti þess telji slíkri skrifstofu betur fyrir komið undir Stjórnarráðinu því að ástæða þess að við sem flytjum þetta mál og leggjum til að lagaráð verði staðsett á vegum Alþingis og undir hatti Alþingis er einmitt sú viðleitni okkar að rétta hlut Alþingis í lagasetningunni. Það hefur margoft komið hér fram. Við höfum öll heyrt umræðu um það, og hún hefur m.a. farið fram hér, að vægi Alþingis hafi í raun farið minnkandi gagnvart auknu vægi framkvæmdarvaldsins. Við þekkjum öll þá umræðu og ég vil fullyrða að flest okkar finni fyrir því á Alþingi hversu mikið og þungt vægi framkvæmdarvaldsins er í tengslum við lagasetninguna.

Vel má vera að sú lagalega ráðgjöf --- og ég reyndar vil meina það að í ráðuneytinu sé mikið af hæfu löglærðu fólki starfandi en það breytir ekki því að verkefni okkar er líka það að styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni, að styrkja þátt Alþingis í ríkisvaldinu. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég hafði ekki hugmyndaflug í það að ímynda mér að hæstv. forseti Alþingis mundi leggjast af svo miklum þunga gegn málinu á þann hátt sem hann gerir. Vissulega ber ég fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hans. Ég hef aldrei sagt neitt annað. Þó verð ég að viðurkenna að á köflum hef ég ekki alveg skilið kannski rökstuðninginn hjá honum að vera á móti málinu. Ég virði þau rök fullkomlega. En ég undrast eigi að síður að hann skuli ekki taka undir þann þátt í okkar málflutningi að æskilegt sé að styrkja verulega stöðu Alþingis í lagasetningunni og að bæta löggjafarundirbúninginn í ljósi þess, herra forseti, að við höfum verið að fá athugasemdir um meinbugi á lögum sem eru í meira mæli en gerist í nágrannaríkjununum burt séð svo frá því hvaða form nágrannaríkin hafa á því að undirbúa sín lög að öðru leyti.

Ég hef ekki heldur enn þá heyrt rök fyrir því af hverju ekki sé þörf á slíkri skrifstofu, ráði eða nefnd, hvað sem við köllum það, hér á landi meðan önnur ríki allt í kringum okkur telja fulla þörf á að hafa slíka skrifstofu starfandi. Ég held að við séum ekki betur af guði gerð en kollegar okkar í öðrum löndum eða höfum betri þekkingu á lögfræði eða á tæknilegum úrlausnarefnum varðandi lagasetningu. Ég leyfi mér að efast um það og af því að hæstv. forseti Alþingis, hv. þm. Halldór Blöndal, er enn staddur í salnum að hlýða á þessa umfjöllun, þá kalla ég eftir því hver séu rökin fyrir því að ekki sé þörf á að gera þetta hér á landi á meðan önnur ríki telja sig þurfa slíka starfsemi.

Ég vil líka ítreka það, herra forseti, vegna þess að það hefur margoft verið rætt í umræðunni að nefndasvið Alþingis hefur verið eflt á síðustu árum og hefur að öllu leyti verið vandað mun meira til þessara hluta og lögfræðiþekkingin á vegum þingsins er mun meiri nú en fyrir nokkrum árum. Ég vil ítreka það að ég margtók fram í framsögu minni og örugglega einhvern tíma í andsvörum líka að þetta hefur verið að gerast. En þetta hefur líka verið að gerast, herra forseti, í löndunum allt í kringum okkur. Þar hafa þjóðþingin verið að stórbæta lögfræðiþekkinguna innan þingsins til viðbótar við það að vera með slíka stofnun, ráð eða skrifstofu á borð við það sem lagt er til í þessu frv. Þetta er m.a. til komið vegna þess að þessi lagatæknilegu úrlausnarefni og lögfræðilegu úrlausnarefni eru miklu meiri, sérstaklega þar sem mikið er um það að löggjöf komi til á grundvelli alþjóðasamninga, þá krefst það aukinnar lögfræðiþekkingar innan þingsins að útfæra það innan ráðuneytanna. Þetta hefur því líka verið að gerast í nágrannalöndunum þannig að það eru ekki rök fyrir því að okkur nægi að efla nefndasviðið og fjölda löglærðra manna innan þingsins en að einhver rök séu fyrir því að ekki þurfi að koma á borð þessu ráði eða einhverju ámóta fyrirbæri eins og nágrannaríkin hafa gert og sum hver hafa mjög lengi haft starfandi með góðum árangri.

[19:00]

Af hverju leggjum við til að lagaráð sé skipað eins og lagt er í þessari tillögu? Ef ég fer fyrst yfir 1. gr. áður en ég ræði um 2. gr., þá á ég mjög erfitt með að skilja af hverju fólk áttar sig ekki á því hvað felst í síðari setningu þeirrar greinar sem er svona, herra forseti:

,,Lagaráð er Alþingi og Stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar, um það hvort frumvörp standast stjórnarskrá eða alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er bundið af eða hvort á frumvörpum eru lagatæknilegir ágallar.``

Mér finnst þetta alveg skýrt, herra forseti. Þetta er auk þess í samræmi við þá umfjöllun sem hefur verið að eiga sér stað annars staðar. Þetta er í samræmi við verkefni ámóta fyrirbæra annars staðar og kemur mjög glögglega fram í allri umfjöllun um málið. Hvort sem hún er lögfræðilegs eðlis eða af öðrum toga þá eru menn að tala nákvæmlega um þessi verkefni. Síðan er það að sjálfsögðu ráðsins að útfæra það nánar hversu langt það gengur í þeim efnum og, eins og lagt er til í 2. gr. frv., forsætisnefndar Alþingis sem við flutningsmenn þessa frv. töldum okkur vera að gera nokkuð hátt undir höfði í frv. með því að leggja til að forsætisnefnd skipi án tilnefningar formann nefndarinnar og setji auk þess ráðinu starfsreglur, herra forseti. Með þessu erum við leggja til að forsætisnefnd eigi gríðarlega mikinn þátt í því að móta hvernig þetta ráð fari af stað og hvernig það starfi vegna þess að við viljum auka vægi Alþingis í lagasetningunni eins og ég hef margoft sagt í þessari ræðu og fyrri ræðum sem ég hef haldið um þetta mál í dag.

Af hverjum leggjum við til að ráðið verði skipað eins og segir í 2. gr., þ.e. að tveir menn séu skipaðir samkvæmt tilnefningu o.s.frv.? Ég tek það fram að það er ekkert heilagt í mínum huga. Við veltum fyrir okkur hvort við ættum að láta t.d. Dómarafélag Íslands tilnefna einn. Hugsanlega gætu fleiri menn verið í ráðinu. Það gæti verið skipað fimm mönnum. Mér finnst ekkert heilagt í þeim efnum. Þetta er ein hugmynd sem hér er viðruð. Ég er þeirrar skoðunar persónulega að ekki sé rétt að dómarar komi að slíkum löggjafarundirbúningi, sérstaklega í ljósi þess að þeir séu þá búnir að gefa ráð um það hvernig eigi að meta lögin þegar þeir hugsanlega fá þau seinna til umfjöllunar. Mér fannst því ekki vera nógu góður bragur á því. En ég útiloka ekkert í þeim efnum og mér finnst það ekki vera heilagt, herra forseti. Það er útfærsluatriði.

Við leggjum hins vegar til að tveir nefndarmanna séu skipaðir að tillögu annars vegar lagadeildar háskólans og hins vegar að tillögu Lögmannafélagsins. Það er í samræmi við þá umræðu sem hefur verið um stofnun slíks ráðs t.d. í Danmörku. Þar hefur þetta verið inni í myndinni. Sænska lagaráðið er stofnað 1909. Í raun er það skipað dómurum tveggja dómstiga, annars vegar stjórnsýsludómstigsins og hins vegar hæstaréttar. Fyrirmyndin er síðan 1909 og kannski er ekkert óeðlilegt við að í tímans rás mundu menn ef þeir væru að gera þetta í dag hugsanlega hafa eitthvert annað form á þessu. Það hefur hins vegar reynst ágætlega þar í landi og kannski er engin ástæða til að breyta því þar í samræmi við þá hefð sem þar hefur skapast. En í Danmörku er umræðan á þessum nótum og þangað m.a. höfum við svolítið verið að horfa.

Bara svo það sé alveg skýrt þá vona ég að ég hafi ekki móðgað neinn eða við flutningsmenn þessa frv. með því að leggja til að forsætisnefnd skipi ekki alla nefndina án tilnefningar. Það er einungis gert með það í huga, herra forseti, að tryggja ákveðið sjálfstæði og ákveðna faglega umfjöllun í ráðinu. Ég ítreka það enn og aftur að þetta er í anda þess sem menn eru að tala um t.d. í Danmörku og hafa lagt til þar, að eðlilegt sé að Lögmannafélagið og lagadeildin eða háskólinn komi að þessu ráði. En eins og ég sagði áðan leggjum við til að forsætisnefnd setji ráðinu starfsreglur þannig að hún ræður mjög miklu um það hvernig af stað verður farið. Forsætisnefnd hefur mjög mikið um það að segja samkvæmt þessu frv. hvernig þetta fyrirbæri mundi mótast.

Ég get líka viðurkennt það hér, herra forseti, að það var allt saman vísvitandi gert að hafa þetta ekki of niður njörvað vegna þess að við teljum og ég fullyrði að ef vilji væri fyrir því af hálfu hæstv. forseta Alþingis eða forsætisnefndar að útfæra þessa hugmynd þá væri þeim ekkert að vanbúnaði að gera það. Forsætisnefnd er í raun fengið mjög mikið hlutverk með þessu frv. og það er viljandi gert vegna þess að ég tel að hún eigi að hafa mjög mikil áhrif á það hvernig þetta ráð verði mótað og hvernig það fari af stað og treysti ég forsætisnefnd mjög vel til þess. Það var ástæðan fyrir því að við leggjum til að þetta sé útfært á þann hátt sem hér hefur greinilega kallað á mjög mikil mótmæli hjá a.m.k. einhverjum hv. ræðumanna í dag.

Það er líka þekkt fyrirbæri úr stjórnsýslunni að farin sé tilnefningaleiðin í nefndir eða ráð á borð við þetta og ekkert óeðlilegt við það. Þvert á móti er mjög gott að dreifa valdinu á þann hátt sem þarna er gert. Ég held að menn megi ekki vera svo frekir á vald sitt að þeir treysti ekki faglegum aðilum á borð við lagadeild háskólans eða Lögmannafélaginu til þess að útfæra það sem þessu ráði er ætlað. Það er að mínu mati viðleitni til þess að sporna gegn því að ráðið verði pólitískt. Ég tel að það séu minni líkur á því ef það eru tilnefningaraðilar heldur en ef forsætisnefnd mundi skipa allt ráðið.

Ég ítreka það enn og aftur, herra forseti, að skipanin og fyrirkomulag þess hverjir nákvæmlega sitja í þessu ráði er ekki heilagt að mínu mati, en ég tel mikilvægt að þetta ráð verði undir hatti Alþingis en ekki undir Stjórnarráðinu fyrst og fremst vegna þess að ég tel að Alþingi þurfi á frekari styrkingu að halda við löggjafarundirbúning eða í því lagasetningarferli sem nú er orðið þrátt fyrir að menn hafi lagt töluvert í nefndadeildina og að bæta við löglærðu fólki innan þingsins.