Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:10:31 (4885)

2001-02-20 19:10:31# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hissa á því að hv. þm. Halldór Blöndal sé núna fyrst að átta sig á þessu vegna þess að þetta stendur í 2. gr. frv.:

,,Forsætisnefnd Alþingis setur ráðinu starfsreglur og kveður nánar á um starfssvið þess og starfsskilyrði.``

Þetta hefur alltaf legið ljóst fyrir frá því að málið var lagt fyrir og frá því að hugmyndin var mótuð.

Herra forseti. Ég sé bara ekkert óeðlilegt við það þegar frv. á borð við þetta er lagt fram sem felur í sér ákveðna tillögu um að stofna tiltekið ráð, því falið ákveðið hlutverk og síðan sé forsætisnefnd Alþingis --- ég vek athygli á því að við erum að leggja til að Alþingi sé styrkt í lagasetningarferlinu og við treystum forsætisnefnd Alþingis mjög vel til þess að setja þessu ráði starfsreglur. Ég hef hins vegar mjög skýrar hugmyndir um það, herra forseti, hvernig slíkar starfsreglur eiga að vera og ég get vel boðið hæstv. forsætisnefnd krafta mína, verði eftir því óskað.