Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:53:27 (4992)

2001-02-27 13:53:27# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er enn komið til umræðu í sölum Alþingis meint yfirvinnubann í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Það er sérkennilegt í ljósi þess að hæstv. dómsmrh. eyddi öllum misskilningi um það mál í utandagskrárumræðu á þinginu fyrir áramót. Þá fór ráðherra m.a. yfir tölur um yfirvinnu deildarinnar sem sýna svart á hvítu hvernig í pottinn var búið. Samt kemur þessi umræða aftur upp þrátt fyrir að aukin fjárveiting sem þingið ákvað að tillögu hæstv. dómsmrh. hafi verið samþykkt í þinginu til að leggja til fíkniefnalöggæslu í fjárlögum fyrir árið 2001. Þar er m.a. gert ráð fyrir 20 millj. kr. sjóði til að mæta kostnaði af umfangsmiklum fíkniefnarannsóknum. Sjóðurinn mun draga úr sveiflum í starfi fíkniefnalöggæslunnar og gera alla skipulagningu auðveldari.

Herra forseti. Nú ber þessa umræðu að hér í þinginu í kjölfar frétta þess efnis að Vestmannaeyjalögreglan hafi ekki fengið nægilega aðstoð við rannsókn í ákveðnu máli. En eins og dómsmrh. lýsti í ræðu sinni áðan stóð í raun ekki á aðstoð m.a. frá embætti ríkislögreglustjóra. Hins vegar virðast boðskiptin milli lögregluembættanna hafa verið óskilvirk og hefur ráðherra óskað eftir úttekt á því eins og fram hefur komið. Meintur fjárskortur kemur málinu ekki við.

Þá hefur komið fram að lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakaði þetta mál en ekkert hefur komið fram um að sá grunur sem var fyrir hendi hafi verið á rökum reistur. Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur staðið sig mjög vel og stærsta verkefni hennar er án efa löggæsla á þjóðhátíð sem einmitt er unnin í samvinnu við lögregluna í Reykjavík. Ég tel það ekki fjarri að taka til skoðunar við næstu fjárlagagerð hvort ekki sé rétt að efla Vestmannaeyjalögregluna með fjárheimild fyrir sérstakan fíkniefnalögreglumann. Það mundi hvort tveggja í senn efla fíkniefnalöggæsluna í Eyjum og stuðla að nánara samstarfi á milli lögregluembætta.