Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:00:00 (4995)

2001-02-27 14:00:00# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Viðbrögð hæstv. dómsmrh. og raunar stjórnarliða allra eru ótrúleg. Í stað þess að horfast í augu við viðvarandi vandamál er ráðist að sendiboðunum, þ.e. stjórnarandstöðunni, og hún sökuð um meinbægni í afstöðu til þessara mála. Ef það er hald ráðherrans að engin vandamál steðji að löggæslu í landinu þá er ráðherrann annaðhvort að stinga höfðinu í sandinn og vill ekki vita betur ellegar hún er í fílabeinsturni og veit ekki betur. Hvort tveggja er mjög slæmt.

Ég hef talað við fjölda löggæslumanna, starfaði raunar sem slíkur fyrir rúmum 20 árum og þekki vel til þeirra starfa. Staðreyndin er einfaldlega sú að þeir finna það á eigin skinni manna helst að mjög hefur verið þrengt að kjörum þeirra, starfsskilyrðum þeirra. Það hefur verið yfirvinnubann í gangi. Ef þeir finna það ekki og skynja það ekki, hverjir þá?

Herra forseti. Lögreglumenn eru illa launaðir og þegar þeir njóta ekki stuðnings æðsta yfirboðara síns, dómsmrh. í landinu, er ekki von á góðu. Það er viðvarandi kurr og það eru leiðindi meðal þeirra. Ég vil ganga svo langt, herra forseti, að segja líka, og við skulum gæta að því, að þeir eru auðvitað undir það ok seldir að þurfa að taka við boðum frá æðsta yfirmanni sínum og þora því illa að koma fram og segja sannleikann. En þetta hafa þeir sagt og Landssamband lögreglumanna hefur tekið af öll tvímæli í málinu. Staðreyndin er einfaldlega sú, að annar hvor segir ósatt, hæstv. dómsmrh. ellegar lögreglumenn í landinu. Ég trúi hinum síðarnefndu, herra forseti.

Hér er um að ræða speglun á ævintýrinu um nýju fötin keisarans. Því lauk á einn veg. Nakinn veruleikinn var öllum ljós. Ef hæstv. ráðherra vill ekki taka til hendinni í þessum málaflokki, þá verða aðrir hæfari að gera það.