Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:48:01 (5006)

2001-02-27 14:48:01# 126. lþ. 77.4 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31 14. apríl 1993. Ég verð að segja það í kjölfar hæstv. dómsmrh. að auðvitað hefur þetta ekkert að gera með sjálfa framkvæmd hjónavígslu. Að sjálfsögðu ekki. Þetta er ekkert endilega óhagræði en þetta er aðgreining milli Íslendinga og útlendinga. Það er það sem er verið að gera fyrst og fremst í þessu frv.

Ég hefði gjarnan viljað hafa það svo að allir væru með sérstaka könnunarmenn hvort sem það væri ég eða einhverjir aðrir. Það er ekkert að því að aðgreina í rauninni það sem þarf að spyrja um og það sem fólk þarf að leggja fram í þeim gögnum þegar það ætlar að ganga í hjónaband og síðan er þá allur hátíðleikinn eftir hjá vígslumönnunum. Þetta verði aðgreint, en við förum ekki út í að aðgreina það að hafa eitt er varðar útlendinga og annað er varðar Íslendinga. Við höfum ekki haft það þannig og mér finnst að við eigum ekki að fara að stíga það óheillaskref.

Frumvarpið er samið að höfðu samráði við biskup Íslands, Prestafélagið og Sýslumannafélagið og það sem þessar stofnanir eins og t.d. Biskupsstofa og Prestafélagið vildu láta skoða var auðvitað spurningin um hvort þetta bryti í bága við mannréttindi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef kom í ljós að svo væri ekki og það var ástæðan fyrir því að þeir voru sammála því að þetta kæmi fram. En áður komu fram nokkrar upplýsingar, t.d. ein afar góð grein sem Toshiki Toma, prestur nýbúa, skrifaði í blöðin og sennilega flestallir þingmenn hafa fengið þar sem hann var eiginlega með umsögn um frv. löngu áður en það kom fram á Alþingi þar sem hann vekur athygli á ýmsu, t.d. því hvernig þetta kemur inn á mannréttindi, varðandi stjórnarskrána og annað. Það er því ekki hægt annað en taka það verulega til íhugunar, og það mun allshn. gera, og taka til skoðunar það sem hann hefur að segja og bendir á í tveimur mjög góðum greinum einmitt um þetta frv.

Ég vil meina að það sé óheillaskref að fara að aðgreina þetta af því að ég er alveg klár á því að fyrir venjulegt fólk úti í bæ, sem þarf hvort eð er að sækja vottorð sín á Hagstofuna og hingað og þangað, sé það ekki endilega númer eitt, tvö eða þrjú að það sé presturinn sem skoðar þá hluti heldur sé það þessi svokallaði könnunarmaður sem er löglærður. Því að Íslendingar eru ekki allir eintómir englar, svo mikið er víst, þannig að það þarf alveg eins að kanna þetta almennilega fyrir okkur. Ég vildi því óska að þessi umræða fengi svo faglega og góða umfjöllun í allshn. að við mundum öll breyta okkur í könnunarmenn en að það væru ekki vígslumennirnir. Það má þá kannski ræða það sérstaklega við prestana. Það getur verið að það sé viðkvæmt hjá þeim en ég held ekki. Kannski er framsýnin í þessu sú að það sé ágætt að aðskilja þetta tvennt. Ég vil benda hæstv. dómsmrh. á hina mjög góðu grein Toshikis Toma. Við munum fara yfir það í allshn. og ræða við aðila og ég vil því ekki tjá mig meira að svo komnu máli.