Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:34:13 (5276)

2001-03-07 13:34:13# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Sem nefndarmaður í hv. menntmn. tek ég undir þær kröfur sem komu fram í máli hv. þm. sem talaði á undan og lýsi því yfir að stjórnarandstaðan hefur dregið í efa heimild hæstv. ráðherra samkvæmt 53. gr. grunnskólalaganna til að gefa heimild til þess að bjóða út kennsluþátt í Áslandsskóla í Hafnarfirði. Þar sem ég hef, herra forseti, aflað mér upplýsinga frá árinu 1973 um tilurð þessarar greinar í lögunum þá er það alveg ljóst að greinin var aldrei hugsuð öðruvísi en svo að hana mætti nýta til þess að gera kennslutilraunir í skóla þannig að við höfum enn rökstuddan grun um það að hér sé verið að nýta heimild í lögum til hluta sem var aldrei ætlast til að túlka á þann hátt sem hér um ræðir. Það er því mikilvægt, herra forseti, að hv. menntmn. fái að nálgast þetta mál á þeim nótum sem óskað hefur verið eftir. Ég styð því þá beiðni sem er komin fram og tek undir þau orð hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar að harla erfitt er fyrir okkur hv. þm. að fá að vita það hvernig við eigum að sinna störfum okkar sem best ef hv. menntmn. fær ekki að taka málið til umfjöllunar á þeim nótum sem beðið hefur verið um.