Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:42:41 (5281)

2001-03-07 13:42:41# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá beiðni sem hefur komið fram því að það er alveg ljóst að þegar grunnskólalögin voru sett og 53. gr. sett, þá höfðu menn ekki það ímyndunarafl að láta sér detta í hug að bjóða út heilan grunnskóla. Hér er verið að tala um allt aðra hluti í 53. gr. Þó að það sé orðið nokkuð um liðið síðan þessi grein var samþykkt verð ég að segja að ég held að það séu ekkert margir í dag sem hafa svo frjótt ímyndunarafl að geta túlkað greinina á þennan hátt. Það þarf sérstaka pólitíska lífssýn til þess að lesa greinina með þessum hætti en vissulega er það hægt ef maður setur upp þau pólitísku gleraugu að það megi hreinlega bjóða út grunnskóla. En þetta kemur a.m.k. mjög flatt upp á þá sem hafa talið að við værum nokkuð örugg hér á Íslandi með grunnskólann okkar, með heilbrigðisþjónustuna, ákveðna grunnþjónustu sem við höfum staðið vörð um. Við erum með aðalnámskrá sem er skýr. Við eigum metnaðarfullar sveitarstjórnir sem vilja að farið sé eftir námskránni. Hvað er þá verið að gera? Það á ekki að gera neitt nema að spara. Á hverjum lendir sá sparnaður? Hann getur ekki lent á neinum nema börnunum sem eiga að þiggja þessa þjónustu.