Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:42:59 (6021)

2001-03-27 14:42:59# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., Frsm. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, með síðari breytingum.

Ég vil árétta að ég er samþykkur nál. meiri hlutans að því leyti til að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggst ekki gegn því að kísilgúrverksmiðjan við Mývatn verði seld. Það er stefna flokksins að leggjast ekki gegn því að skoðaðir séu sölumöguleikar á fyrirtækjum af því tagi sem kísilgúrverksmiðjan er, en við höfum lagt skýra áherslu á það að við erum andvíg sölu á stoðkerfum samfélagsins.

Í nál. mínu á þskj. 954, máli nr. 510, kemur fram að minni hlutinn setur fyrirvara varðandi kísilgúrnám í Mývatni að aflokinni vinnslu í Ytriflóa og einnig varðandi uppbyggingu nýrrar verksmiðju með annars konar vinnsluferli. Það mál þarf að taka til sérstakrar athugunar, bæði hvað varðar verksmiðjuna sjálfa og hráefnisöflun til hennar.

Að öðru leyti, eins og ég hef áður greint, er minni hlutinn samþykkur því að stefna beri að sölu á hluta ríkissjóðs í Kísiliðjunni hf. við Mývatn.

Ég tel að ýmsir möguleikar opnist við þetta nýja og breytta form og ég vil að það komi fram hér í framhaldi af þessu minnihlutaáliti að ég er sannfærður um og hef mikla trú á því að nýju eigendurnir, sem hafa komið á fund nefndarinnar og skýrt frá áformum sínum, séu í stakk búnir til þess að vinna eftir nýjum leiðum. Hv. Alþingi hefur samþykkt lög um umhverfismat framkvæmda. Þessir nýju aðilar hafa unnið á öðrum slóðum, m.a. í Noregi, og tileinkað sér þær aðferðir sem viðhafðar eru við stofnun slíkra fyrirtækja í því lagaumhverfi sem er t.d. í Noregi. Þar er vinnuferlið kannski miklu lengra komið en við eigum að venjast og ég held að reynsla þessara nýju aðila sem þarna koma að málum verði uppbyggingu og framkvæmdum til hagsbóta í Mývatnssveit.

Ég segi þetta vegna þess að nýlega var haldin ráðstefna norður í landi þar sem fram komu áhyggjur manna af regluverkinu varðandi umhverfismat og reglur um aðlögun að umhverfinu, og ég tel mikla möguleika á að þarna sé komin inn þekking varðandi vinnuferli í því nýja umhverfi sem við búum við í þessum efnum og vísa ég þá til umhverfismats framkvæmda sem auðvitað gildir fyrir landið allt og er nýsamþykkt hér á hinu háa Alþingi. En eins og menn vita gilda sérreglur varðandi Mývatnssveit, lögin um verndun Laxár og Mývatns, en að vissu leyti eru lögin um umhverfismat framkvæmda mjög áþekk þeim línum sem gefnar eru varðandi það friðland sem um er að ræða í Mývatnssveit.

Að síðustu, virðulegi forseti. Í nál. mínu eru þessi atriði undirstrikuð. Það verður líka að fara varlega varðandi tímalengdina. Komið hefur í ljós að vinnsla á kísilgúr í Ytriflóa dugar verksmiðjunni kannski ekki nema í eitt og hálft ár, í hæsta lagi tvö ár, og þá þarf að skoða vandlega framhaldið ef menn ætla að stefna að sex árum. En ég tel tvímælalaust að þetta sé til bóta og að hin nýju áform verði vonandi til hagsbóta fyrir Mývatnssveit. Í ljós hefur komið að framtíð slíkrar vinnslu úr Mývatni var ekki björt, verð hefur fallið á síðustu árum um 1% á ári í 10--15 ár, og það þolir verksmiðja af þessu tagi ekki. Breytingin gefur því vonir um að hægt sé að fara inn á nýjar brautir og stunda vinnslu í sátt og samlyndi við náttúruna í Mývatnssveit.