Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:55:58 (6025)

2001-03-27 14:55:58# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu ýkja mikið. Framsögumaður minni hluta iðnn., Árni Steinar Jóhannsson, hefur gert grein fyrir afstöðu okkar og ég tjáði mig einnig við 1. umr. þessa máls og hef þar ekki neinu við að bæta.

Það sem ég vil að öðru leyti gera hér, herra forseti, í ræðustólnum er að hryggja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson með því að sú merka uppgötvun sem hann taldi sig hafa gert hér er nú ekki alveg jafnmerkileg, held ég, og hann hafði bundið vonir við. Hv. þm. taldi það mikil tímamót sem hann hefði af glöggskyggni sinni komið auga á, að með því að við gerðumst stuðningsmenn þessa frv. og styddum það að ríkið seldi 51% eignarhlut sinn í Kísiliðjunni væri brotið í blað í sögu okkar, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Íslandssögunni jafnvel þar með. Það er að vísu ekkert nýtt að við verðum vör við að menn í öðrum flokkum séu talsvert uppteknir af okkur og fylgist grannt með störfum okkar og við erum þakklát fyrir það. En það er nú ekki svo að það hvorki sé né hafi verið neitt sáluhjálparatriði eða í stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að ríkið þurfi að eiga eða eigi að eiga einstök atvinnufyrirtæki í almennum atvinnurekstri af þessum toga. Það er ekki svo. Við sjáum alls ekkert því til fyrirstöðu þegar aðstæður eru hagfelldar og rök mæla með því, eins og í þessu tilviki, að aðrir taki við slíkum rekstri. Það breytir engu um andstöðu okkar við það að t.d. velferðarstofnanir séu einkavæddar eða mikilvægar stofnanir á sviði almannaþjónustu í fákeppnis- eða einokunaraðstæðum séu færðar yfir í hendur einkaaðila til þess að græða á þeim með tilheyrandi niðurskurði þjónustu og annað sem því tengist.

Þessu mega menn helst ekki rugla saman, herra forseti, og ég vona að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kynni sér þá málin aðeins betur framvegis áður en hann dregur of víðtækar ályktanir af athyglisgáfu sinni, sem er að sönnu mikil eins og við uppgötvuðum með því að hann tók eftir því að við værum stuðningsmenn þessa máls, en af því má ekki draga, herra forseti, of víðtækar ályktanir.