Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 16:01:07 (6032)

2001-03-27 16:01:07# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frv. enda tel ég að á heildina litið sé það framfaraskref. Mér finnst að tími hafi verið til kominn að við tækjum þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Þó að frv. sé í heildina gott mál er að sjálfsögðu ýmislegt sem ástæða er til að skoða og eðlilegt að félmn. kanni hvort skerpa eigi á, bæta við eða breyta.

Ég tek að sjálfsögðu undir þær vangaveltur sem fram hafa komið um frv. hjá fulltrúum Samfylkingarinnar í félmn., þeim Guðrúnu Ögmundsdóttur og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Ég ætla ekki að endurtaka það sem þær hafa sagt. Frv. er framfaraskref og ég tel að við ættum að geta sameinast um að gera það og lög sem sett verða í framhald af því sem best úr garði. Málið er hafið yfir það að vera pólitískt mál sem menn hafi afstöðu í á grundvelli þess hvort þeir eru stjórnarliðar eða í stjórnarandstöðu. Í þessu máli eiga menn að sameinast um að gera sem best og þess vegna er mikilvægt að félmn. fari í heild sinni yfir það.

Hér stendur til að gera breytingar á grundvallaratriðum í meðferð barnaverndarmála. Það er verið að kollvarpa ýmsum hugmyndum og hefðum sem hér hafa ríkt í vinnubrögðum, t.d. að færa frumúrskurðarvald frá barnaverndarnefnd til dómstóla. Það þarf auðvitað að skoða hvað fylgir því að taka svo stórt skref. Það eru svo mikil umskipti að hætta með úrskurði heima í héraði í barnaverndarnefndunum og fara með málin fyrir dómstólana. Þess vegna er mikilvægt að sérfróðir meðdómendur verði kallaðir til. Verði frv. að lögum verða gerðar nýjar kröfur til málsmeðferðar. Við verðum að muna að út frá lögunum eru teknar afdrifaríkar ákvarðanir fyrir barnið. Það eru hagsmunir barnsins sem eru hafðir að leiðarljósi en þetta er líka afdrifaríkt fyrir foreldra.

Það eru tveir meginþættir sem ég vil tala um hér og spyrja ráðherrann um. Í fyrsta lagi kemur fram í greinargerðinni að faglega hefur verið staðið að undirbúningi og vinnu við þetta frv. Til að vinna frv. var skipuð nefnd sem leitaði umsagnar mjög víða eins og kemur fram á bls. 29. Hins vegar kemur líka fram, þegar maður fer að halda áfram í greinargerðinni að ákveðnar breytingar hafi verið gerðar í félmrn. eftir að fagnefndin skilaði frv. Þetta finnst mér óvanalegt, sérstaklega með tilliti til þess sem ég hef áður nefnt, að í svona frv. eru ekki pólitískar áherslur sem kalla á að fagráðherra geri breytingar á frv. í samræmi við pólitíska afstöðu sína. Eins og ég hef áður sagt er frv. ekkert fremur unnið út frá áherslum stjórnarmeirihluta eða þess háttar.

Nefndin vann frv. og þegar hún hafði gert það gat ráðuneytið farið þá leið að senda málið til umsagnar til aðila sem gefið hefðu álit sitt og í kjölfar þess hefði verið eðlilegt að gera breytingar ef ástæða hefði þótt til. Mér sýnist á frv. að það hafi ekki verið gert. Þess vegna spyr ég, þar sem fram kemur að nefndin hafi skilað tillögum sínum að frv. til félmrh. 19. desember og síðan hafi verið farið yfir frv. í ráðuneytinu og gerðar á því breytingar: Hverju var breytt og hvers vegna? Þetta er annað grunnatriðið sem ég vildi nefna varðandi vinnu við frv.

Ég vil líka minna á að í 7. gr. er fjallað um sértæk úrræði. Þar er komið inn á málefni Barnaverndarstofu. Mér finnst það mjög eðlilegt, ekki síst vegna þess að í þeirri skýrslu, um barnavernd á Íslandi, sem við þingmenn fengum senda fyrir nokkrum vikum, eru í fylgiskjölum yfirlitsskýrslur frá Barnahúsinu. Því var fróðlegt að sjá hvernig taka ætti á því máli í barnaverndarlögunum. Það er gert í 6. mgr. 7. gr. Þar er fjallað um sérhæfða þjónustu sem Barnaverndarstofu sé heimilt að bjóða barnaverndarnefndum vegna verkefna sem nefndunum er gert að sinna --- reyndar er nefnt að heimilt sé að taka gjald fyrir veitta þjónustu samkvæmt reglugerð sem ráðherra muni setja. Síðan segir segir um 6. mgr. 7. gr., varðandi þjónustuhlutverks Barnaverndarstofu, með leyfi forseta:

,,Með því er átt við að ef Barnaverndarstofa metur það æskilegt þá geti stofan boðið sértæka þjónustu, fyrst og fremst sérhæfð úrræði, sem barnaverndarnefndum ber að öðru jöfnu að hafa tiltæk. Kemur þetta helst til álita þegar þörf er sérhæfingar, svo sem við meðferð utan stofnunar í málum vegna kynferðisbrota bæði fyrir þolendur og gerendur, og annars konar meðferð utan stofnunar vegna afmarkaðra vandamála, t.d. vímuefnanotkunar eða hegðunarerfiðleika. Einnig gerir þetta Barnaverndarstofu kleift að þróa nýjungar í meðferð fyrir börn utan stofnana, en sífellt meiri áhersla er lögð á slíkt í nágrannalöndum okkar. Barnaverndarstofa hefur unnið að slíkum verkefnum og hefur sótt heimild til þess í ákvæði um rannsóknar- og þróunarstarf. Eitt af mikilvægustu verkefnum Barnaverndarstofu af þessu tagi hingað til er Barnahús. Um Barnahús er fjallað í almennum athugasemdum hér að framan. Erfitt er að sjá fyrir sér að einstakar barnaverndarnefndir geti haft frumkvæði eða rekið úrræði sem næði markmiðum slíkrar miðstöðvar. Nefndin telur æskilegt að renna styrkari stoðum undir möguleika Barnaverndarstofu á því að koma þjónustu af þessu tagi á laggirnar. Á því er tillagan í 6. mgr. byggð.`` --- segir um 7. greinina.

Hér var vísað í almenna umfjöllun um Barnahús á bls. 35. í frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Meðal þróunarverkefna sem Barnaverndarstofa hefur staðið fyrir er svonefnt Barnahús. Barnahúsið er samstarfsvettvangur fyrir úrvinnslu mála sem varða kynferðisbrot gegn börnum. Markmiðið með starfseminni er að samhæfa hlutverk mismunandi aðila sem fást við rannsókn slíkra mála, fækka komustöðum og viðmælendum barns svo að það þurfi ekki að endurupplifa erfiða lífsreynslu með nýjum og nýjum viðtölum við marga viðmælendur frá mismunandi stofnunum. Á einum og sama staðnum fer barn bæði í rannsóknarviðtal og læknisskoðun. Viðtöl eru tekin af sérfræðingum á þessu sviði og fjöldi viðmælenda í lágmarki. Barnið og fjölskyldan geta fengið á áfallahjálp og langtímameðferð. Á einum stað er til þverfagleg þekking mismunandi aðila við rannsókn og meðferð mála sem unnt er að miðla til þeirra sem á þurfa að halda.``

Ég er afskaplega ánægð að sjá þessa umfjöllun í stjórnarfrv. í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur verið um Barnahús. Ég geri mér fulla grein fyrir því, herra forseti, að þarna er eingöngu um heimildargrein að ræða en mér finnst jákvætt að sjá svo góða umfjöllun um Barnahúsið í stjórnarfrv. enda höfum við öll haft miklar áhyggjur af þróun þeirrar umræðu. Mér finnst að þrátt fyrir allt bjóðist þarna tækifæri til að skoða og koma í lag málefnum Barnahúss þannig að það þjóni þeim markmiðum barnaverndarlaganna sem hér er verið að fjalla um, með því að gera þær breytingar sem þarf og skjóta styrkum stoðum undir starfsemi þess. Mér finnst að vegna þess að þetta er komið inn í frv. til barnaverndarlaga frá stjórnvöldum þá geti félmn. skoðað með allshn. breytingar sem tryggja mundu starfsemi Barnahúss í þágu barnanna númer eitt, tvö og þrjú. Um það snúast þessi lög, að gera það besta í þágu barnanna.

Þetta vil ég leggja til við félmn., að hún skoði 7. greinina, hvað er verið að segja um þessi mál á bls. 35 og 51, að nefndin fari vinsamlega ofan í það. Það er ekkert vit í að við séum í einhverri togstreitu líkt og í umræðum okkar um lög um meðferð opinberra mála og höngum á því á því eins og hundar á roði. Ég er mjög ánægð að sjá þetta í frv.

Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég ekki að gera frv. ítarlegri skil. Stöllur mínar í þingflokknum, hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir eru í félmn. og munu vinna með þetta mál. Þær hafa sýnt það í umræðunni að þær eru meðvitaðar um hvað þurfi að skoða. Það er þó þrennt smátt sem ég ætla að nefna hér.

Í fyrsta lagi vil ég minnast á það sem fram kemur á bls. 81. og hæstv. félmrh. kom inn á. Þar segir:

,,Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að óheimilt sé að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum, eða öðrum stofnunum þar sem barnaverndarstarf fer fram, menn sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem talin eru hér að framan. Bent er á að bannið tekur eingöngu til barnaverndaryfirvalda og stofnana sem sinna barnaverndarstarfi, hvort sem þær eru einkareknar eða reknar af ríki eða sveitarfélögum. Þetta er sams konar regla og í norsku lögunum.``

Inn á þetta kom hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir í sinni ræðu.

Síðan segir:

,,Að sjálfsögðu kemur til athugunar hvort samsvarandi bann skuli gilda um skóla, leikskóla og dagvistarheimili fyrir börn og aðra staði þar sem börn koma saman og dveljast um lengri eða skemmri tíma, svo sem íþrótta- og tómstundamiðstöðvar o.s.frv.``

Ég vil nefna það að dagmæðrum sem taka að sér að gæta barna er skylt að framvísa sakavottorði. Starfsfólki leikskóla er hins vegar ekki skylt að framvísa sakavottorði. Þó er vitað að þeir sem hneigjast til afbrigðilegrar hegðunar sækja inn á stofnanir þar sem unnið er með börn, fötluð börn eða ungmenni, þ.e. þá sem eru ósjálfbjarga ef á þá er sótt. Þeir sem reka einkarekna leikskóla þurfa ekki að framvísa sakavottorði. Þar er stjórn og öll uppbygging og þróun leikskólanna framseld til annarra og málið þar með út úr stjórnsýslunni hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ég bið nefndina að skoða þetta. Auðvitað er ekki hægt að taka á því í barnaverndarlögum en nefndin getur tekið á því í nál. að þarna sé misræmi, sums staðar þar sem unnið er með börn sé beðið um sakavottorð og annars staðar ekki og ástæða sé til að skoða það í viðkomandi lögum.

[16:15]

Jafnframt langar mig að nefna ákvæði um talsmann. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um það. Það er afskaplega mikilvægt. Ég legg til að nefndin skoði hvort kveða eigi fastar að orði. Þetta er mjög góð hugsun, þ.e. að alltaf eigi að taka afstöðu til þess þegar tekið er til við að kanna mál hvort skipa skuli barni talsmann því til halds og trausts meðan á meðferð málsins stendur. Þar er átt við börn undir 15 ára aldri.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað flutt mál um talsmenn í barnaverndarmálum. Barnaverndarnefnd á að meta þetta. Barn sem orðið er 15 ára er hins vegar aðili máls og á rétt á aðstoð lögmanns o.s.frv. Ég ætla að leggja það til að nefndin skoði hvort í einhverjum tilfellum eigi að kveða svo fast að að skylt verði að skipa barni talsmann. Það er mjög mikilvægt að það verði skoðað.

Herra forseti. Í þriðja lagi þá ætla ég að nefna tilkynningarskylduna. Auðvitað væri ástæða til að fara yfir sérhvert atriði þessa frv. en það hefur þegar verið gert. Í 16. gr., á bls. 6 í frv., segir um tilkynningarskylduna:

,,Hver sá sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.``

Auðvitað vakna spurningar um hvernig því verði komið á framfæri við almenning, við starfsfólk og leiðbeinendur sem vinna með börn, að það axli þessa ábyrgð, að því beri að tilkynna ef eitthvað í hegðun barnsins bendir til þess að eitthvað sé að hjá því.

Við erum farin að sjá fálæti borgarsamfélagsins, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Í fámenninu er kannski önnur staða. Þar þekkir hver annars hag og vinátta nær því við hvert hús. Þar dettur engum í hug að neitt alvarlegt sé að. En er einhver sem er alla tíð að taka við óbeinum skilaboðum frá barninu sem brotið er á? Upp koma mjög alvarleg tilfelli sem verða æ algengari í samfélagi okkar. Kynferðislegt ofbeldi og misnotkun. Það er ótrúlegt að þegar það kemst upp þá hefur það oft viðgengist í hræðilega langan tíma.

Þess vegna bið ég líka um að nefndin skoði hvort með einhverjum hætti eigi með jöfnu millibili hafa samráð við leikskóla, skóla og íþróttafélög eða tómstundaaðila í sveitarfélagi og gera sveitarfélögunum það skylt á einhvern hátt að minna á að það sé borgaralega skylda hvers og eins, telji hann að brotið sé á barni, að tikynna það til barnaverndaryfirvalda. Það er samfélagsskyldan við barnið.