Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:01:15 (6039)

2001-03-27 17:01:15# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem beinast að spurningum mínum. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga og er sannfærð um að allir muni einhenda sér í það. Hins vegar fer ég ekkert ofan af því að mér finnast það frekar undarleg vinnubrögð þegar svo vel hefur verið staðið að málum eins og ég hef lýst í ræðu minni, að fagteymi eða nefnd hefur undirbúið slíkt frv. og sent það mjög víða, að mér finnst eiginlega þar sem þetta er ekki pólitískt mál eins og ráðherrann tók undir, að betra sé annaðhvort að senda málin út á vinnslustigi nefndarinnar og taka inn það sem nefndinni finnst að skipti máli frá umsagnaraðilum eða láta félmn. senda það út. Það er frekar skrýtið að láta hina og þessa aðila lesa þetta yfir.

Ég ætla hins vegar ekki að blanda mér í einstök atriði þess sem ráðherrann nefndi. Þó finnst mér að það sem hann nefnir varðandi barn sem er vistað í fóstur virki svolítið eins og gamla sveitfestin sé endurvakin og það finnst mér mjög slæmt.

Að öðru leyti veit ég heldur ekki nákvæmlega hvaða heimili það eru sem Reykjavík var andvíg að væru alveg hjá ríkinu, hvort þarna er um að ræða að ríki og sveitarfélög eigi að vera með sams konar heimili, en mér finnst mjög mikilvægt að þegar heimili taka við börnum af litlum sveitarfélögum af landsbyggðinni, þegar alvarleg mál koma upp, þá sé það tryggt. Lítil sveitarfélög hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að vista barn þó það fái inni hjá stærra sveitarfélagi ef það kostar t.d. þúsundir kr. Eins hef ég talið að Barnaverndarstofa gæti gert þjónustusamninga ef það væru góð heimili í Reykjavík, Kópavogi eða Hafnarfirði sem mundu þá taka börn frá öðrum stöðum ef á þyrfti að halda af því að það er það sem einkennir barnaverndargeirann eins og hann hefur þróast og það eru þjónustusamningar við alla þá sem eru með þjónustu við börn út um allt land og þar sem sértæk vinna er í gangi með börn.