Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:56:58 (6053)

2001-03-27 17:56:58# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað skelfileg mynd sem hv. þm. dregur upp. Maður gæti haldið að hér væri verið að fara frá fyrirmyndarástandi yfir til einhvers mun verra.

Staðreyndin er auðvitað sú, herra forseti, að í dag er staðan þannig að mönnum finnst löngu tímabært að taka á henni. Hér reynir síðan hv. þm. að telja okkur trú um að stofnfjáreigendur sem fá hlutafé sem gagngjald fyrir stofnfé sitt geti komist í þá stöðu að fara að lána sér ódýr lán hér eftir. Hafi þeir ekki gert það hingað til þá átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn að baki slíkum ásökunum er.

Eru völd eins af einhverjum hundruðum stofnfjáreiganda eða hluthafa, sem þar með er í fulltrúaráði sem kýs stjórn sjálfseignarstofnunar sem hefur það hlutverk að vinna að vexti og viðgangi sparisjóðs, orðin svo óskaplega mikil að hann geti látið bankann, í þessu tilfelli sparisjóðinn, lána sér ódýrt lán? Ég verð að segja að ef þingmaðurinn álítur að svo sé þá er hann að opna dyr inn í hugmyndaheim sem ég vissi ekki að fengi þrifist hér, hvað þá að slíkt væri hluti af veruleikanum.

Eins og ég sagði áðan hefur þeim sem núna eru stofnfjáreigendur sparisjóðanna, þeir skipta í einhverjum tilfellum hundruðum, hingað til verið treyst fyrir stjórn þessara sparisjóða. Það er þó verið að reyna að gera þessa stöðu lýðræðislegri og betri en hún er í dag. Það væri hægt að ganga lengra í því. Ég sé hins vegar ekki, herra forseti, af hverju breytni manna ætti að verða sú sem hv. þm. lýsir við þá breytingu sem þetta frv. gerir ráð fyrir á lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði.