Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 18:59:04 (6064)

2001-03-27 18:59:04# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. misskildi það sem ég hafði sagt um að ekki mætti framselja hluti. Ég átti að sjálfsögðu við stofnfjárhluti, stofnfé sem menn eiga í sparisjóðunum. Það má ekki framselja þá nema með samþykki sparisjóðsstjórnar og veðsetningin er alfarið óheimil eins og stendur á síðu 7. Það er það sem ég átti við. Það er fyrir hlutafjárvæðinguna sem markaðurinn myndast.

[19:00]

Eins og komið hefur fram í umræðunni getur einhver aðili --- stofnfjáreigendur þurfa ekki að vera persónur, þeir geta verið lögpersónur, þeir geta verið hlutafélag, það er ekkert sem bannar það, þeir geta verið sveitarfélag. Og það er ekkert sem bannar að einhver stór aðili bjóði mönnum, stofnfjáreigendum, t.d. þessum þúsund sem eru hjá SPRON, mjög gott verð fyrir hlut sinn ef þeir kjósa mann hans í stjórn. Þegar hann er kominn í stjórn áður en hlutafjárvæðingin verður, þá ræður hann hvaða stofnfé er framselt því að hann ákveður það. Hann getur ákveðið að þau stofnfjárbréf sem hann ætlar að kaupa, að framselja megi þau til fyrirtækja hans og þar með getur hann borgað mjög sæmilegt verð fyrir þetta stofnfé vegna þess að hann ræður um aldur og ævi þessari sjálfseignarstofnun sem á 90% í þeim sparisjóði.

Það er þetta sem ég var að benda á og þegar ég gat um spillingu og annað slíkt, þá átti ég við möguleikana á slíku. Ég var alls ekki að segja að þetta ætti sér stað í dag, langt í frá. En þetta er það sem ég átti við.

En mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað gerist þegar stofnfjáreigandi fellur frá? Hvað gerist með hlut hans og atkvæðisrétt og rétt hans til að kjósa stjórn sjálfseignarstofnunarinnar?