Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 15:04:36 (6341)

2001-04-04 15:04:36# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það mátti skilja hv. þm. sem síðast talaði svo að ekki væri lengur til fátækt fólk á Íslandi og því væri í lagi að afnema verkfallsréttinn. En svo er ekki, herra forseti. Enn er það svo að stéttirnar nota verkfallsréttinn þegar svo er komið að með engu öðru móti er hægt að ná samningum, hvort sem er um kaup eða kjör.

Í tilfelli sjómanna hefur það margoft komið fram, herra forseti, að þeim hefur ekki auðnast að ná samningum vegna þrákelkni viðsemjenda sinna, eða vegna þess að ríkisstjórnin hefur gripið inn í deiluna, haft afskipti með þeim hætti að af samningum hefur ekki orðið.

Hæstv. ráðherra verður, ekki síst vegna þessara fyrri inngripa, að tala skýrar en hann hefur gert. Þeim sem eru að semja þarf að vera alveg ljóst að ábyrgðin sé þeirra og að jafnframt geti þeir treyst því að að þessu sinni fái þeir frið. Ráðherrann hefur sjálfur sagt að lagasetningar hafi ekki leyst deilu útvegsmanna og sjómanna. Sannarlega munu afskipti nú ekki gera það heldur. Hitt er svo annað mál að ráðherra mætti taka betur þeim tillögum sem hér hafa verið fluttar, sem lúta að því að breyta starfsumhverfi sjómanna.

Herra forseti. Mér finnast skilaboðin héðan úr þinginu alveg skýr. Þau eru skýr og hæstv. ráðherra getur haft þau í nesti. Sjómenn og útvegsmenn eiga að semja sín á milli um kaup og kjör. Það er afdráttarlaus skoðun þeirra þingmanna sem hér hafa talað. Ég skora á hæstv. ráðherra að tala algjörlega skýrt ef hann ætlar að ljúka þessari umræðu svo að menn velkist ekki í nokkrum vafa um að nú sé ábyrgðin deiluaðilanna.