Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:12:56 (6702)

2001-04-24 14:12:56# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er tilefni til að taka þessa umræðu enn einu sinni. Bandaríkjamenn hafa nýlega komið með þessa yfirlýsingu sem hér er til umræðu. Þjóðum heims er auðvitað mikill vandi á höndum. Það hafa komið fram vísbendingar frá færustu vísindamönnum og það hefur ekki heldur farið fram hjá almenningi þær miklu öfgar í veðurfari sem sanna það sem vísindamenn hafa verið að segja að það sé hlýnun á jörðinni. Því er spáð að þessi hlýnun geti orðið meiri en dæmi eru um frá síðustu þúsund árum jarðsögunnar. Þetta er trúverðugur rökstuðningur sem hefur komið fram frá hendi vísindamanna og þeir hafa líka trúverðugt sýnt fram á stórkostlegar breytingar sem munu valda þessari hlýnun.

En ekki eru allir vísindamenn sammála um að þetta sé svona og Bandaríkjastjórn skákar í því skjólinu og í þeirri afstöðu sinni hleypur hún undan merkjum í samstöðu þjóða sem hafa verið að vinna að Kyoto-bókuninni, þjóða sem taka sjálfar sig alvarlega í náttúruvernd, hafa í heiðri þá reglu að náttúran eigi að njóta vafans ef áhöld eru um áhrif athafna mannsins. Eigi þessi regla nokkurs staðar við, þá á hún við í þessu máli. Hér eru hagsmunir allra þjóða heims undir og það er óafsakanlegt ábyrgðarleysi af þeirri þjóð sem á mesta sök á þeim vanda sem hér er við að glíma, þjóð sem telur sjálfa sig fremsta þjóða, þjóð sem hefur mestu möguleikana á að hafa áhrif á að það náist að stöðva þessa háskaför að vera svo upptekin af stundarhagsmunum sínum að hún hleypur undan merkjum. Íslendingar sem eiga allt sitt undir því að náttúrugæðum verði ekki spillt verða að láta rödd sína hljóma sterkt og standa af fullum þrótti með þeim sem vilja sýna fulla ábyrgð í þessu efni. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnvöld lýsi því yfir að þau styðji Evrópuríkin í því að Kyoto-bókunin verði skuldbindandi fyrir haustið 2002 og þrýsti einnig á Bandaríkjastjórn að hún breyti afstöðu sinni. Íslendingar geta það.