Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:15:28 (6703)

2001-04-24 14:15:28# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Alveg án tillits til þess hvernig við stöndum okkur og hvort við erum fremst á sviði umhverfisverndar í heiminum þá er alveg ljóst að rík þjóð eins og Íslendingar ber siðferðilega ábyrgð á hinum sameiginlegu örlögum heimsins og það er það sem við erum líka að ræða hérna alveg eins og hefur komið fram hjá ýmsum hv. þm. Ég segi þetta vegna þess hroka sem birtist í ræðu hv. þm. Ástu Möller áðan þar sem hún kom með heimastíl og flutti ræðu sem var úr öllu samhengi við umræðuna og ásakaði okkur um hugmyndafátækt og vera málefnasnauð af því að við leyfum okkur að taka upp þetta mál sem er í gjörbreyttri stöðu eftir afstöðubreytingu Bandaríkjaforseta eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf. Þau voru að mörgu leyti ákaflega jákvæð. Það er alveg ljóst að hún er að vinna að því eftir þeim aðferðum sem hún hefur til þess að fá Bandaríkjamenn til að skilja að þeim hafa orðið á mistök. Ég vil hins vegar beina því til hæstv. ráðherra að hún mundi beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að menn mundu grípa til frekari ráða en þeirra sem hún nefndi. Ég hvet hana til að sjá til þess að íslenski sendiherrann í Bandaríkjunum verði sendur á fund viðkomandi umhverfisyfirvalda til þess að láta í ljósi skoðun íslensku ríkisstjórnarinnar á þessu máli. Ég hvet hana til þess að fá formann síns flokks til þess að kveðja á sinn fund sendiherra Bandaríkjanna til þess að gera slíkt hið sama og ég hvet hana líka til þess að senda Bandaríkjaforseta bréf fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar til þess að láta afstöðu okkar koma skýrt fram.

Herra forseti. Hér er um svo grafalvarlegt mál að ræða að við verðum að gera allt sem hægt er. Eins og hæstv. umhvrh. sagði í ræðu sem hún flutti fyrir skömmu á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um loftslagsbreytingar þá eru að koma fram upplýsingar sem benda til þess að afleiðingar losunar þessara skaðlegu lofttegunda verði mun meiri en menn gerðu áður ráð fyrir og í skýrslu sem hæstv. ráðherra hefur gefið út kemur fram að á þeirri öld sem er nýbyrjuð er líklegt að loftslag á Íslandi muni hlýna um þrjár gráður. Það gæti leitt til þess, herra forseti, að sneyðast mundi um fiskimiðin sem við byggjum afkomu okkar á.