Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:55:51 (6764)

2001-04-24 18:55:51# 126. lþ. 110.23 fundur 653. mál: #A framhaldsskólar# (deildarstjórar) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh. um að ræða frv. til laga sem tengt er lausn kjaradeilu milli ríkisins og framhaldsskólakennara og er í raun afar einfalt mál. Þó er hér eitt atriði sem ég held að sé rétt strax á þessu stigi, áður en málinu verður vísað til menntmn., að fá skýringar á frá hæstv. menntmrh.

Í lögunum stendur nú, þ.e. varðandi það ákvæði að fella niður ákvæðið um deildarstjóra, að þeir séu ráðnir til tveggja ára. En nú er hér gerð tilaga um það varðandi aðra stjórnendur, sem eru þá þeir sem í raun koma í stað deildarstjóra án þess að skilgreint sé hvað um er að ræða, að þar séu engin tímamörk á ráðningu. Þetta er á skjön við það sem segir í lagagreininni um aðstoðarskólameistara sem eru ráðnir til fimm ára sem er sami ráðningartími og skólameistasrar hafa. Áfangastjórar eru síðan ráðnir til fjögurra ára en aðrir stjórnendur eru ekki með nein mörk hér í lagatexta. Það er því spurning til hæstv. menntmrh. hvort þetta er í samræmi við samkomulag milli deiluaðila og tengist að einhverju leyti lausn kjaradeilunnar sem var hér fyrir skömmu.