Auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:56:46 (6812)

2001-04-25 14:56:46# 126. lþ. 112.4 fundur 593. mál: #A auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Fyrst um það að ráðherranum sé tregt tungu að hræra í sölum Alþingis um þetta mál, þá tókum við sem höfum beðið eftir því að málið birtist í þinginu eftir því að ráðherra var hins vegar ekki sérstaklega orða vant þegar fjölmiðlum var gerð grein fyrir því hvað frv. fól í sér, þ.e. þegar það var afgreitt út úr ríkisstjórn til þingflokka ríkisstjórnarinnar. Það er afskaplega óþægilegt að lenda ítrekað í því að mál séu kynnt með þeim hætti þannig að mér hefði fundist að ráðherrann gæti verið býsna berorð hér ef hún einu sinni svo kysi.

Hins vegar kemur hér fram að ekki er ætlað í frv. að fram fari uppboð á nýtingarrétti heldur verði gefið út leyfi ráðherra. Látum gott heita á þessu stigi málsins. En einhvern veginn verður ráðherra að finna hlutlægar aðferðir til þess að veita slík leyfi ef fleiri en einn og fleiri en tveir sækjast eftir leyfi til virkjunar eða raforkuvinnslu á sama stað. Spurning er þá hvaða leiðir ráðherra vill fara. Telur ráðherra að uppboðsleiðin sé útilokuð eða er ráðherra tilbúin að horfa til þeirra leiða ef upp koma slíkar kringumstæður? Auðlindanefnd taldi að ef samkeppnisforsendur væru fyrir hendi þá bæri að fara uppboðsleið eða útboðsleið. Ég tek auðvitað eftir því, herra forseti, að hvað svo sem ríkisstjórnin og talsmenn hennar hafa verið að segja um niðurstöður auðlindanefndar, og henni var almennt fagnað, þá kemur það hér í hverju málinu á fætur öðru svo fyrir að menn fara fram hjá þeirri meginlínu sem nefndin lagði með sínum störfum. Það vekur athygli, herra forseti, að svo skuli vera og mér sýnist að hæstv. iðnrh. sé á svipuðu róli hér í sínum svörum. Þess vegna ítreka ég þessa spurningu: Hvaða hlutlægu leiðir sér hæstv. ráðherra til að veita slík leyfi ef fleiri en einn vilja virkja eða nýta raforku á sama stað?