Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:34:18 (7009)

2001-04-27 14:34:18# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur ekki verið við þessa umræðu. Hann hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu og hefur því kannski ekki, án þess að ég viti það nákvæmlega, hlýtt á menn fara lið fyrir lið yfir þá röksemdafærslu sem hér hefur verið sett fram. Þegar það hefur verið gert þá kemur á daginn að ekki stendur steinn yfir steini. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvað gengur mönnum til? Hvað gengur mönnum til þegar engin rök eru haldbær fyrir þeim aðgerðum sem að er stefnt? Allar rannsóknir sem sýna fram á að markmiðunum verður ekki náð með þessari leið. Er þá nema von að menn spyrji hver markmiðin séu og hvað geri það að verkum að þessi leið er valin? Er nema von að ályktað sé að menn séu að reyna að reisa sér einhvers konar minnisvarða til að vitna til í skálaræðum á mannamótum þegar það á við?

Ég vil líka halda því til haga að ég sagði ekki að allir menn kæmu verri út úr fangelsum. Ég sagði að það lægi ekkert fyrir um það hvort menn kæmu þaðan betri og líklega væri erfitt að færa rök fyrir því.

Ég hef bent á annað, virðulegi forseti, í málflutningi mínum, þ.e. að stjórnvöld veita reynslulausn. Einungis 40% þeirra sem eru dæmdir í refsivist sitja allan þann tíma. Þess vegna velti ég því upp, ef menn telja að lengri fangelsisdvöl geri það á einhvern hátt að verkum að glæpum fækki, hvort ekki væri eðlilegra að stjórnvöld breyttu þessari framkvæmd hjá sér, þ.e. láta menn þá sitja lengur inni telji menn það markmið. Sú leið er hins vegar ekki talin æskilegust.