Búfjárhald og forðagæsla o.fl.

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:33:10 (7026)

2001-04-27 15:33:10# 126. lþ. 114.19 fundur 298. mál: #A búfjárhald og forðagæsla o.fl.# (varsla stórgripa) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, forðagæslu o.fl. Hér er um að ræða endurflutning á frv. sem flutt hefur verið efnislega óbreytt eða nær óbreytt líklega eins og þrívegis áður.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Jónína Bjartmarz, Sigríður Jóhannesdóttir og Vilhjálmur Egilsson. Frv. flytja sem sagt, herra forseti, þingmenn úr öllum þingflokkum.

Þessu máli er ætlað að taka á því ófremdarástandi sem því miður ríkir enn á ákveðnum afmörkuðum svæðum meðfram þjóðvegum landsins og meginumferðaræðum og hefur satt best að segja því miður harla lítið gerst í þessum efnum núna undanfarin tíu ár eða svo.

Frv. er einfalt og felur í sér að við 5. gr. laganna um búfjárhald, forðagæslu o.fl. bætist ein málsgrein og orðist svo, með leyfi forseta:

,,Eigendum stórgripa, þ.e. nautgripa og hrossa, er skylt að hafa gripi sína í vörslu allt árið og sjá til þess að þeir gangi ekki lausir á þjóðvegum eða við þá. Ákvæði þetta skal þó ekki hindra hagagöngu stórgripa utan girðinga þar sem tryggt þykir að af því hljótist engin hætta fyrir umferð, svo sem í heimalöndum eða afréttum sem liggja hvergi að alfaraleiðum. Viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnir skulu setja í samþykktir sínar um búfjárhald, sbr. 3.--4. gr., nauðsynleg ákvæði í þessu sambandi að höfðu samráði við lögreglustjóra. Engin slík ákvæði sem heimila hagagöngu stórgripa utan girðinga, sbr. 2. málsl. þessarar málsgreinar, öðlast þó gildi nema landbúnaðarráðherra staðfesti þau.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. september 2002.``

Herra forseti. Frv. felur með öðrum orðum í sér að komið yrði á almennri vörsluskyldu á stórgripum í landinu með þeim undantekningarmöguleikum þó sem eru fólgnir í upprekstri eða hagagöngu stórgripa þar sem því væri þannig fyrir komið að tryggt væri að ekki hlytist af því árekstrar við umferð, þjóðvegi eða aðrar meiri háttar umferðaræðar.

Herra forseti. Í langflestum sveitarfélögum landsins er það ástand, sem frv. gerir ráð fyrir að lögfesta sem almenna reglu, við lýði og það er vegna þess að meiri hluti sveitarstjórna í landinu sem á annað borð hefur tekið þessi mál fyrir hefur fyrirskipað slíka vörsluskyldu stórgripa. Ég held að án undantekninga sé slík vörsluskylda reglan í öllum stærri þéttbýlissveitarfélögum og einnig víða í sveitum landsins. En frá þessu eru undantekningar allmargar og það eru þær sem árlega valda árekstrum milli umferðar og stórgripa og það eru þær sem valda sífelldri umræðu um þessa árekstra og þau slys eða þá hættu sem þeim eru samfara.

Herra forseti. Ég tel að því miður að ekki séu líkur til þess að verulegar úrbætur verði á þessu ástandi enn um sinn a.m.k. nema gripið verði til þess að gera eigendum stórgripa skylt sem almenna reglu að hafa gripi sína í vörslu.

Þegar á þessum málum var tekið í kringum 1990 varð niðurstaðan sú eftir allmiklar umræður að láta á það reyna með því að styrkja heimildir sveitarfélaga til að setja í samþykktir sínar ákvæði m.a. um slíka vörsluskyldu hvort sveitarfélögin mundu þá ekki sjálf í framhaldinu taka á þessu þannig að fullnægjandi teldist. Það gerðu mjög mörg þeirra en ekki öll og því miður stöðvaðist sú þróun og það hefur jafnvel borið á hinu gagnstæða, að nokkur sveitarfélög hafi fellt úr gildi samþykktir sem áður voru komnar í gildi um slíka vörsluskyldu og þá væntanlega m.a. vegna þrýstings af því að dómar hafa gengið sem geta vísað í þá átt að líkur á því að sök sé skipt milli ökumanns eða bifreiðar annars vegar og eiganda stórgrips hins vegar aukist ef um vörsluskyldu sé að ræða í viðkomandi sveitarfélagi og vel að merkja eigandinn hafi gerst sekur um vanrækslu á þeirri vörsluskyldu.

Að öðru leyti, herra forseti, ætti þessi lagabreyting ekki að breyta í neinu þeim rétti sem gildir varðandi ábyrgð á tjónum eða slysum sem kunna að verða. Áfram ber ökumönnum að sjálfsögðu að aka með gát og víkja fyrir búfénaði sem verður á vegi þeirra. En hitt er auðvitað ljóst að ef vörsluskylda er reglan þá ber eigandunum jafnframt að framfylgja þeirri skyldu sinni eftir því sem hann fær því við komið. Gerist hann sekur um augljósa vanrækslu á því t.d. að sinna ekki um það ef gripir sleppa úr haldi eða girðingar eru ónýtar þá færist ábyrgðin eðlilega að einhverju leyti yfir á hans herðar.

Síðan þetta var, um 1990, hafa þessi mál nánast árlega komið til umræðu og þar á meðal oft hér á þingi. Þetta frv. hefur verið flutt þrívegis áður eins og áður sagði og það hefur gengið til búnaðarþings og þar hefur verið talsvert um það fjallað. Um þessa aðferð hafa verið talsvert skiptar skoðanir, það skal fúslega viðurkennt, að gera þetta með þessum hætti. Menn hafa þar fært ýmislegt fram og vissulega hafa menn ákveðin rök fyrir sér í því að mörg álitamál tengjast þessu, eins og t.d. þau hvaða skyldur Vegagerð ríkisins á að axla í þessum efnum, hvaða fjármuni hún á að leggja af mörkum til þess að girða af þjóðvegi landsins þannig að búpeningur sé yfirleitt þar ekki til staðar, á vegum eða vegsvæðum, og hvernig koma á þeim hlutum fyrir sem snúa að bæði stofnkostnaði og síðan viðhaldi og eftirliti slíkra girðinga, hvert hlutverk aðila eins og Vegagerðar annars vegar, sveitarfélaga og landeigenda hins vegar er o.s.frv. Auðvitað eru þetta allt sjónarmið sem eiga rétt á sér inn í umræðuna.

Sömuleiðis hafa menn fært fram þau rök að þetta kunni að skapa mönnum falskt öryggi á vegunum, t.d. ef slík vörsluskylda væri komin á sem almenn regla í landslögum varðandi stórgripina. Vel að merkja og er rétt að leggja á það áherslu að hér er eingöngu verið að fjalla um þá. Þetta mál varðar alls ekki og kemur ekki sauðfé við, enda er þar um allt annað og stærra mál að ræða og mál sem liggur öðruvísi, enda líka ekki sama ástæða til að hafa af því stórfelldar áhyggjur hvað umferðaröryggi snertir í þeim skilningi að slys sem tengjast árekstrum sauðfjár og umferðar eru afar sjaldan jafnalvarleg og þegar stórgripir eiga hlut.

Herra forseti. En á hitt verður að horfa eins og það er að nú hafa menn búið við tiltölulega lítt breytt ástand í þessum efnum í um áratug eins og ég met ástandið og enn eru hlutirnir eingöngu á könnunarstigi eða nefndarstarfi og bólar lítt á aðgerðum. Það ber að vísu að taka það fram að í tengslum við, ef ég man rétt, enn eitt óhappið þar sem stórgripir urðu valdir að alvarlegu umferðaróhappi núna í haust þá blandaði hæstv. landbrh. sér í umræðuna nokkuð kjarkmikill eins og stundum svona í fyrstu umferð og taldi alveg einboðið að taka mjög fast á þessum málum. Síðan hef ég lítið af því heyrt.

Hér er þá lögð til að undangengnum ákveðnum aðlögunartíma sú aðgerð að taka þetta í lög sem almenna reglu þegar stórgripir eiga í hlut. Það breytir engu um nauðsyn þess að útkljá önnur álitamál sem þarna kunna að vera uppi eins og þetta með girðingarnar og að skoða annars vegar ákvæði girðingarlaga, ákvæði vegalaga og þá hluti sem breyst hafa í þessum efnum á undanförnum árum og að sjálfsögðu þarf að taka mið af.

Herra forseti. Aðeins til þess að rökstyðja þörfina fyrir því að eitthvað sé aðhafst í þessum efnum þá vísa ég mönnum á fylgigögn með frv. Ég hef árlega, líklega síðan 1993--1994, eða með reglubundnu millibili látið taka saman eða aflað mér gagna sem tekin hafa verið saman um árekstra við búfé á fyrstu árunum, þ.e. árunum 1993, 1994 og 1995 voru slík gögn ekki aðgengileg og ég hygg að það hafi verið í tengslum við flutning þessa frv. í fyrsta skipti sem í fyrsta sinn voru dregin saman gögn frá lögreglustjóraembættunum í landinu og þau birt með aðgengilegum hætti. Ég man að ég vann það að hluta til sjálfur á þessum tíma. Síðan hefur m.a. Hugi Hreiðarsson sem er áhugamaður um þessa hluti og hefur ritað blaðagreinar um þetta mál, í gegnum störf sín og áhuga birt mjög greinargóðar upplýsingar sem hann hefur unnið um þessi efni og við þær er að hluta til stuðst í hér fylgiskjölum og fyrst og fremst þá fskj. I með frv. þessu. En það sýnir, herra forseti, svo ekki verður um villst að að meðaltali á ári hverju á þessu árabili, frá segjum 1994 og til og með árinu 1999, eru árekstrar stórgripa, og þá fyrst og fremst hrossa, og umferðarinnar svona frá 25 á ári hverju og allt upp undir 50. Það eru sem sagt að meðatali svona tveir og upp í það að vera yfir fjórir slíkir árekstrar í mánuði hverjum og nú er það auðvitað eins og menn vita oft mjög alvarlegur atburður þegar stórgripur, hross eða naut, sem vegur nokkur hundruð kíló --- þó ekki sé hann jafnmyndarlegur á fæti og hann Guttormur inni í húsdýragarði --- en þá munar nú um minna þegar kannski 300--500 kg stórgripur sem stendur kyrr á vegi rekst á eða á hann rekst segjum lítill léttur fólksbíll sem er kannski ekki nema nokkur hundruðum kílóum þyngri en stórgripurinn segjum á 90--100 km hraða. En þannig geta atburðirnir gerst t.d. í brúnamyrkri á haustin þegar dökklitað hross óvænt stekkur upp á veginn eða birtist þar í lægð eða beygju eða annars staðar.

[15:45]

Ég hygg að margir hafi orðið fyrir því sem mikið hafa keyrt um á þjóðvegum landsins, eins og t.d. ræðumaður og örugglega fleiri hér inni því að þingmenn eru oft á ferð um landið, að oft hefur mátt litlu muna þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi.

Vissulega er það svo að óhöppin og slysin eru mun fleiri þegar kindur eiga í hlut en ef skoðað er hversu alvarleg þau eru þá kemur í ljós, og um það má sjá bæði í gagnabönkum Umferðarráðs og fleiri gögnum sem tekin hafa verið saman, í lögregluskýrslum og víðar, að mjög sjaldan er þá um alvarleg óhöpp að ræða, tjónið oftast óverulegt eða a.m.k. mun minna. Þó að þau tilvik séu fleiri eða frá því að vera um 70--80 á ári og allt upp í að vera talsvert á annað hundrað eða um 200 eins og þau voru á árinu 1999 er rétt að gera þennan greinarmun á.

Ef skoðaðar eru töflur á bls. 4 og 5 í frv. sjá menn að þessi óhöpp eru bundin við algerlega afmörkuð svæði. Þau eru mikið í Borgarfirði og víðar á Vesturlandi, þau eru í umdæmum lögreglunnar á Blönduósi og Sauðárkróki og einkum á það við um síðasttalda staðinn á fyrri hluta tímabilsins. Þar hefur greinilega tekist að taka nokkuð á málum á síðari hlutanum. Óhöpp eru á ákveðnum afmörkuðum svæðum á Austurlandi og síðan í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli og Selfossi. Þetta er vegna þess að í tilteknum sveitarfélögum innan þessara lögregluumdæma er lausaganga viðhöfð, lausaganga stórgripa er enn þá við lýði og þar með talið við og í kringum ógirta þjóðvegi landsins, ógirtan þjóðveg 1, þess vegna í næsta nágrenni höfuðborgarinnar eins og uppi í Borgarfirði eða á Suðurlandsundirlendinu.

Auðvitað er það, herra forseti, alger tímaskekkja, það þarf ekki að ræða það frekar, að slíkt skuli viðgangast og að ekki skuli hafa miðað meira áfram í því fyrir það fyrsta að girða af þessa vegi sem eru auðvitað hraðbrautir eins og það nálgast að geta talist á nútímamælikvarða, a.m.k. hvað umferðarhraðann varðar. Gæði veganna eru ekki alltaf til þess fallin að nota þá sem hraðbrautir en aksturshraðinn tekur því miður ekki alltaf mið af því. Hvernig sem á það er litið er þetta ástand í raun alveg óþolandi. Mér er það mikið undrunarefni hversu hægt hefur gengið að taka á þessu. Ég held að enginn hagnist á þessu ástandi.

Ég hef oft sagt það við vini mína í forustusveit bænda að þetta sé dæmi um mál sem bændastéttin sjálf á að hafa forgöngu um að taka á og er allra síst gott fyrir landbúnaðinn, sveitirnar og bændur að þetta ástand vari svona. Nú veit ég vel að það er ekki ósk manna að svo sé ef menn kann að greina eitthvað á um það hverjir eigi aðallega að koma til sögunnar og leysa vandann. Pínulítið lyktar þetta af því að menn séu að kasta boltanum á milli sín og reyna að ýta útgjöldunum, sem því geta vissulega fylgt að einhverju leyti að taka á þessu, á milli sín. Bændur verja sig og reyna að ýta þessu meira yfir á Vegagerðina, sveitarfélög eða aðra aðila og öfugt. Vegagerðin hefur auðvitað barist gegn því af miklum dugnaði, það er mér vel kunnugt um, að fá þetta mál alfarið á sínar herðar. Þá eru það ekki síður áhyggjur Vegagerðarinnar af því að sitja uppi með viðhaldið á girðingum upp á mörg þúsund km meðfram þjóðvegum landsins sem menn hafa haft þar í huga en stofnkostnaðinn sjálfan.

Síðan held ég, herra forseti, að við eigum að spyrja: Eru það búskaparhættir sem við höfum mikla samúð með lengur að láta stórgripi vera í lausagöngu á láglendi og í nágrenni við þjóðvegi landsins? Nú er það augljóst mál, það kemur fram í þessum gögnum og liggur fyrir, að í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella er slíkt aflagt og stórgripir eru í vörslu, nautgripir nær alfarið. Það er þó svo merkilegt sem það er fáein tilvik um að nautgripir hafi verið að þvælast um, valdið slysum og jafnvel verið í lausagöngu. Þetta er nokkuð algengara með hross en langflestir bændur landsins, yfirgnæfandi meiri hluti bænda landsins býr ekki þannig í dag að stórgripir séu utan vörslu. Það eru aðeins nokkrar undantekningar bundnar við þau sveitarfélög þar sem þetta er leyft og vel að merkja er að sjálfsögðu ekki nema hluti bændanna í þeim sveitarfélögum þar sem lausaganga er heimil, þar sem þetta á við.

Herra forseti. Ég tel að ekki verði undan því vikist að aðhafast eitthvað í þessu máli. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að skoða allar hugmyndir um að taka á þessu að einhverju leyti með öðrum hætti en þeim sem hér er lagt til í frumvarpsformi en mér finnst það dapurlegt, ég verð að segja það alveg eins og er, eftir að hafa reynt að ýta þessu máli áfram og fá það tekið fyrir eða komið því eitthvað áfram í gegnum þingið, að sitja uppi með það að mæla fyrir þessu í fjórða sinn á nokkurra ára bili komið undir lok þinghaldsins á þessum vetri, því að þannig verða örlög margra þingmannamála hér að þeim er endalaust ýtt aftur fyrir ný og ný stjfrv., það er því oftar en ekki komið fram á græn grös þegar við loksins fáum að mæla fyrir málum jafnvel þó að við höfum flutt þau snemma þings og sitja svo uppi með það að málin séu svæfð út af og fái ekki einhverja umfjöllun. Þetta mál gengur að sjálfsögðu til landbn. þar sem viðkomandi lög eru á sviði landbúnaðarmála, heyra undir landbrh. og allt það. Ekki er ég að lýsa neinu vantrausti á þá ágætu þingnefnd en þar hefur þetta áður verið til umfjöllunar og lítið gerst. Hæstv. landbrh. hafa komið og farið og að mestu leyti setið við það sama.

Nú söknum við auðvitað kempunnar hæstv. landbrh., Guðna Ágústssonar, 2. þm. Suðurl., sem hafði eins og ég vitnaði til fyrr í máli mínu uppi nokkur sver orð um það að á þessu þyrfti að taka einhvern tíma fyrr á þessum vetri. Hefði verið gaman að heyra eitthvað frá hæstv. ráðherra um það hvar málin eru á vegi stödd og hvort einhvers sé að vænta á næstunni frá hæstv. ráðherra.

Hvað sem því líður, herra forseti, meðan ekkert annað gerist í þessum málum sem vekur manni vonir um að á þessu verði tekið mun ég halda áfram að þrjóskast hér við og flytja þetta mál og hver veit nema einn góðan veðurdag verði svo komið að menn sjái þann kost vænstan að samþykkja það.