Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 11:34:15 (7104)

2001-05-02 11:34:15# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt að hv. þm. sé með böggum hildar yfir þessari yfirlýsingu sinni og fullyrðingum um það að við höfum verið að tapa miklum fjármunum sem m.a. almenningur í landinu hefði þurft að greiða.

En hvað varðar það að greiða með tapi á hlutafjáreign, svo ég bregðist við athugasemdum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, þá er á það að líta að hér er um mjög stórar fjárhæðir að ræða í sölu á hlutabréfum og það var mat einkavæðingarnefndarinnar að búast mætti við að almenningur í landinu mundi fjárfesta allverulega í hlutabréfum í slíku fyrirtæki og væntanlega dygðu u.þ.b. 14% til þess að uppfylla þær óskir.

En ekki er öll sagan sögð þó að seld séu 49%. Þá á eftir að selja 51% þannig að ég á von á því að almenningur eigi þess kost að leggja allverulega fjármuni í kaup á hlutabréfum þessa ágæta fyrirtækis.