Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 14:27:41 (7143)

2001-05-02 14:27:41# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er dálítill vandi á höndum enda lætur hv. þm. sig ekki muna um það í andsvörum sínum að gera mér sífellt upp skoðanir. Hann gerir mér upp skoðanir og ræðst síðan á þær skoðanir.

Virðulegi forseti. Á ég að verja það sem hv. þm. er að ráðast á, sem ég hef ekki sagt? Eða á ég að reyna að útskýra það sem ég vildi sagt hafa?

Ég ætla að segja hv. þm. að ég hef aldrei haldið því fram að Landssíminn hafi staðið sig illa. Þvert á móti getur hann lesið gamla ræðu mína frá árinu 1996--1997 þar sem ég vakti athygli á því að Póst- og símamálastofnun hefði að mörgu leyti staðið sig ágætlega í að lækka taxta og staðið sig prýðilega. En það sem hefur gerst síðan er að hér hefur samkeppni eflst og Landssíminn, eins og önnur símafyrirtæki, hefur lækkað taxta sína, t.d. á GSM-sviðinu þar sem gjaldskráin hefur lækkað gríðarlega eins og ég veit að hv. þm. er kunnugt.

Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að reyna að halda því fram að ég hafi reynt að gera hlut Landssímans verri eða viljað níða af honum skóinn á einhvern hátt.

Ég tel að fyrirtækið hafi að mörgu leyti staðið sig prýðilega. Þar hefur verið byggt upp tæknilega mjög fullkomið fyrirtæki. Það kemur fram í gögnunum. Hins vegar hafði það mjög gott af því og var til hagsbóta fyrir fyrirtækið að það fékk samkeppni. Ég efast um að gamla Póst- og símamálastofnunin hefði getað staðist þessa samkeppni í óbreyttu formi.

Varðandi annað sem hv. þm. talaði um í þessu efni þá vil ég bara vísa í ræðu mína.