Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:19:06 (7154)

2001-05-02 16:19:06# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Stefánsson flutti ágæta ræðu og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Hins vegar vil ég taka skýrt fram að ég held að það sé ekki rétt nálgun að setja kvaðir í fjarskiptalög og síðan einhvers konar tegund af lögreglu til að fylgja þessu eftir í ljósi þess að við erum með fyrirtæki sem hefur, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra í morgun, 85% hlutdeild í þeim tekjum sem verða til á þessu sviði. Það er einmitt þetta sem ég held að sé einfaldlega röng nálgun, að hafa fyrirtæki af þessari stærðargráðu, viðurkenna það, og í framhaldi af því einhvers konar viðbrögð sem eru í kvöðum í fjarskiptalögum og vera með einhvers konar aukalöggæslu í formi Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar. Ég held að þetta sé röng nálgun að verkefninu.

Hv. þm. nefndi í ræðu sinni að tölvubyltingin, ef svo má að orði komast, hafi skapað nýja vídd í atvinnustarfsemi í landinu, það hafi nánast orðið til ný tegund eða ný atvinnugrein hafi þróast undanfarin ár. Það er einmitt kjarni málsins í þessari umræðu og sem lýtur að þeirri spurningu: Hvernig mun þessari nýju grein vegna í því umhverfi sem hér er verið að skapa? Þetta finnst mér vera grundvallarspurning vegna þess að ég er ósammála því að fara inn í þetta á þessari forsendu að vera með risafyrirtæki á þessu sviði, viðurkenna það, reyna síðan að bregðast við með því að setja kvaðir í fjarskiptalög og setja síðan Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun sem sérstaka eftirlitsaðila. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að nær hefði verið að skipta fyrirtækinu upp og þá hefðum við fengið aðra markaðsgerð. En ég vil beina þessari spurningu einmitt til hv. þm.