Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 16:52:35 (7168)

2001-05-02 16:52:35# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að hv. þm. Kristján Pálsson vísaði í málflutning minn áðan en staðreyndin er sú að ég hef ekki flutt ræðu mína enn. Ég hef að vísu komið hér upp tvisvar í andsvörum í dag en ég held að hv. þm. Kristján Pálsson átti sig fullvel á því eins og ég átta mig á því hvernig pólitík hans er. Ég held að það sé ósköp einfalt að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum halda ríkisrekstri á þessu fyrirtæki, það er mjög einfalt, og það er ekkert að komast auðveldlega frá hlutunum. Það er bara eins og hlutirnir hafa verið og við teljum að það hafi verið farsæl lausn. Þess vegna spyr ég hv. þm. að því hvort hann geti ekki virt þá skoðun okkar og þá pólitík frá okkar hálfu að við viljum halda þessu í opinberum rekstri á sama hátt og ég verð að virða skoðanir hans á því að hlutirnir eigi að fara í einkavæðingarfasa. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hann vill það þó ég sé ósammála hv. þm.