Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:00:44 (7201)

2001-05-02 20:00:44# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég get ekki annað en komið hingað og fundið að við hæstv. forseta vegna þess að ég óskaði eftir því fyrir tveimur og hálfum tíma að fá að ræða við hæstv. forsrh. um þá stöðu sem komin er upp varðandi gengi íslensku krónunnar. Hæstv. forseti synjaði mér hins vegar um þá umræðu.

Samkvæmt þingsköpum á almennur þingmaður rétt á að fá slíka umræðu með eins til tveggja tíma fyrirvara. Ég kom til hæstv. forseta og bað um umræðu þegar klukkan var hálf sex og óskaði eftir því að hér yrði settur fundur klukkan átta til þess að ég gæti rætt við hæstv. forsrh. En eins og ég hef sagt, hæstv. forseti synjaði mér þess.

Mér finnst það auðvitað með ólíkindum þegar staðan er þannig að við stöndum frammi fyrir því að, ja dagurinn í dag var einhver blóðugasti dagurinn sem hefur komið upp í sögu íslensku krónunnar frá því menn hættu að fella gengið með því gamla lagi sem tíðkaðist allt fram til júní 1993. Í dag féll gengi krónunnar um 6%. Það bætist við hartnær 11% fall frá áramótum. Það hefur komið fram í fjölmiðlum í dag og í kvöld að íslenska krónan hefur frá áramótum fallið um u.þ.b. 16%. Sérfræðingar sem talað er við í fjölmiðlum kvöldsins kalla þetta gengishrun.

Herra forseti. Það var einnig nauðsynlegt að ræða þetta hér við hæstv. forsrh., ekki síst vegna þess að komið hafa fram skýringar af hálfu stjórnarliða á því hvað veldur hruni gengisins. M.a. er talað um sjómannaverkfallið. Og ég dreg það ekki í efa, eitthvað hefur sjómannaverkfallið með þetta mál að gera.

En það er líka þannig, herra forseti, að ákveðin óvissa er um framtíð íslensks sjávarútvegs vegna þess að út úr sjútvrn. hafa hriplekið tíðindi um það að fyrir dyrum standi að skera verulega niður aflaheimildir á næsta ári. Undir þennan sögusveim hefur jafnvel verið tekið af hv. ...

(Forseti (HBl): Hv. þm. er nú kominn langt út fyrir efnið sem er fundarstjórn forseta. Ég vil biðja hv. þm. að reyna að halda sig við það.)

Herra forseti. Ég get með vissum hætti fallist á að þetta er rétt hjá hæstv. forseta, en ég er hérna að skýra út fyrir hæstv. forseta hvernig standi á því að ég tel að það sé ákaflega nauðsynlegt að ræða þetta mál í dag.

Hver er ástæðan fyrir því að ég óska eftir með svona tiltölulega skömmum fyrirvara að fá að ræða þetta hér í kvöld? Ástæðan er einföld. Hún er sú að það verður ekkert þinghald á morgun. Þingið fer heim að loknum þeim fundi sem nú er hafinn og kemur ekki saman aftur fyrr en á miðvikudaginn í næstu viku. Það þykir mér auðvitað vera fulllangur tími til þess að ræða þetta, ekki síst þegar horft er til þess, herra forseti, að þeir sérfræðingar sem talað er við í fjölmiðlum dagsins lýsa því blákalt yfir að allar líkur séu á því að þessu hruni sé ekki lokið.

Við hefðum þess vegna þurft, herra forseti, að fá heimild hæstv. forseta til þess að ræða við hæstv. forsrh. um það hvaða augum hann lítur þessa stöðu. Hvort hann telji t.d. nauðsynlegt að Seðlabankinn grípi inn í með einhverjum aðgerðum. Og til hvers hann telji að þetta kunni að leiða varðandi verðbólguþróun í landinu.

Það er þetta, herra forseti, sem ég teldi að við hefðum þurft að ræða við hæstv. forsrh. og ég tel það nokkuð ámælisvert af hæstv. forseta að synja stjórnarandstöðunni umræðu um þetta.