Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:14:54 (7208)

2001-05-02 20:14:54# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:14]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þær kröfur sem menn hafa gert um að þessi mál komist til umræðu hér í þinginu. Mér finnst það satt að segja með ólíkindum að hæstv. forsrh. telji það ekki skyldu sína að mæta hér og gefa skýrslu. Það virðist vera að allar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að stjórna þessum hlutum séu að hrynja saman. Það er búið að vera gengishrun. Gengið hefur fallið um 27,5% á sextán mánuðum, með vaxandi hraða, 6% í dag. Það hefði nú einhvern tímann verið talið til tíðinda það sem hefur verið að gerast í efnahagsmálum.

Og hæstv. forsrh. ætti auðvitað að mæta hér og útskýra fyrir þingheimi hvernig stendur á því að hlutirnir eru svona. Höfðu galdramennirnir ekki rétt fyrir sér, eða hvað? Var aldrei óhætt að keyra þær götur sem búið er að gera? Var ekki óhætt að halda uppi viðskiptahalla allan þennan tíma? Halda menn virkilega að aðalástæðan fyrir þessu sé sjómannaverkfallið? Það kemur ekki til mála. Það er ekki farið að hafa áhrif á útflutning nema að mjög litlu leyti, ef nokkuð. Ástæðan er auðvitað sú að eftirspurnin eftir gjaldeyri hefur breyst. Og það er ekkert sem bendir til þess að það sé að snúast til baka. Ofan á þetta kemur greinileg vantrú á íslenskt efnahagslíf og bætir um betur. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn þurfi nú aldeilis að taka til í sínum ranni og fara yfir hlutina. Hún var að gefast upp um daginn á stefnunni sinni þegar ákveðið var að breyta stefnu Seðlabankans og ...

(Forseti (HBl): Hv. þm. fer nú örlítið yfir strikið. Það er verið að tala um fundarstjórn forseta.)

Já, hæstv. forseti. Ég er eins og aðrir hér sem hafa komið í þennan stól að reyna að útskýra það hvaða þungu rök það eru sem er hægt að færa fram fyrir því að hér fari fram efnahagsumræða. Ég vil alveg sérstaklega gera kröfu um það að hæstv. forsrh. geri þinginu grein fyrir stöðu mála og hvað eigi næst að draga upp úr hattinum til að bjarga málum hér á landi, ellegar hljóti menn að fara að hugsa um það í alvöru hvort þeir eru færir um að stjórna efnahagsmálum á Íslandi.