Utandagskrárumræða um gengisþróun

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:17:39 (7209)

2001-05-02 20:17:39# 126. lþ. 116.96 fundur 508#B utandagskrárumræða um gengisþróun# (um fundarstjórn), JB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:17]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil ítrekað vekja athygli á því að frá því að ný peningastefna var sett, bara fyrir rúmum mánuði, hefur gengið fallið um tæp 12%, og bara í þessari viku var gjaldeyrisútstreymi úr landinu um 50 milljarðar króna.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. að láta a.m.k. svo sem hann sé að tala um fundarstjórn forseta. Þessar umræður hjá hv. þingmönnum voru hreinar efnahagslegar umræður.)

Herra forseti. Já, því miður þá koma þessir peningar alls staðar inn, hvar sem maður er. Og líka í umræðu um störf forseta.

Ég vil ítreka að ég tel fulla ástæðu til að hæstv. forsrh. komi og ræði stöðu peningamálanna, því fundarhald hér, í þeirri stöðu sem við erum nú í peningamálum, er svo sem ekki til mikils ef þetta heldur áfram á sama og verri veg eins og nú gengur.

Ég ítreka því ósk mína, hæstv. forseti, að beiðni mín um utandagskrárumræðu um stöðu gengismála, um stöðu verðbólgu og um stöðu efnahagsmála, verði tekin fyrir eigi síðar en á morgun.