Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 20:40:13 (7216)

2001-05-02 20:40:13# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[20:40]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur um að það hefur mjög margt verið vel gert af hálfu Póst- og símamálastofnunar og Pósts og síma. Við vitum að það tókst afar vel í uppbyggingu tæknilegra hliða þessa fyrirtækis og fyrirtækið veitti góða þjónustu á mjög fínu verði. Um það er enginn ágreiningur. Og það starfsfólk sem hefur unnið hjá þessari stofnun og fyrirtæki á auðvitað þakkir skildar fyrir framlag sitt í þeim efnum.

Auðvitað er það ekki þannig að þó að verið sé að gagnrýna eitthvað í ímynd fyrirtækisins eða í fari fyrirtækisins og ég rakti það að í skoðanakönnunum hefði það komið fram, þá er það ekki árás á starfsfólkið. Það er ekki árás á starfsfólk, t.d. stórmarkaða þó að verið sé að gagnrýna þá eins og hefur verið gert upp á síðkastið. Það sem við höfum verið að segja er að það er fyrirtækinu til góða að það hafi öll þau tök sem hægt er að veita því í samkeppnisþjóðfélagi nútímans, t.d. með því að gera það að hlutafélagi á sínum tíma, t.d. með því að selja hlutabréf. Það gerir það að verkum að fyrirtækið getur t.d. verið viðbragðsfljótara.

Það kom greinilega fram hér þegar við vorum á sínum tíma að formbreyta Póst- og símamálastofnun að það stæði þeirri stofnun fyrir þrifum að hún þyrfti sífellt að leita heimilda Alþingis fyrir hinum minnstu viðvikum sem fyrirtækið þurfti að standa í, fjárfestingum o.s.frv. Þetta var ein ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að farið var út í það að formbreyta þeirri stofnun. Um það var ekki ágreiningur.

Það er þetta sem ég var að víkja að hérna fyrr í ræðu minni í dag, en alls ekki því að það fælist í því einhver áfellisdómur yfir starfsfólkinu, nema síður sé, því það kom greinilega fram, bæði í mínu máli og eins í fyrri umræðum um þetta mál að fyrirtækið eða stofnunin hafði á margan hátt náð góðum árangri. Við vorum hins vegar að sigla inn í nýja tíma, nýtt umhverfi og þá þurfti þessi stofnun, þetta fyrirtæki, á öllu sínu að halda til þess að halda velli í þeirri grimmilegu samkeppni sem er orðin að veruleika í fjarskiptageiranum í dag.