Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 21:02:35 (7221)

2001-05-02 21:02:35# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[21:02]

Halldór Blöndal (andsvar):

Það er rétt, herra forseti, hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að fyrir mér vakti að einkavæða Landssímann. Ég lýsti því yfir í blaðaviðtali þegar á haustdögum 1992 og hvarf aldrei frá þeirri skoðun minni. Ég lét líka í ljós þá skoðun mína að ég teldi heppilegt að mjög náið samstarf yrði milli íslenska símans og erlendra símafyrirtækja og að erlend símafyrirtæki fjárfestu í íslenskum símafyrirtækjum.

Ég rökstuddi það m.a. með því að ég óttaðist að síminn mundi lækka í verði ef svo færi og það mundi seinka fyrir þróuninni ef Landssímanum yrði ekki breytt í hlutafélag. Það kom líka á daginn að aldrei þessu vant vorum við örlítið á eftir Finnum og ýmsum öðrum í sambandi við ljósleiðarann, af því að síminn hafði ekki tök á að fjárfesta jafnmikið og nauðsynlegt var til að við gætum haldið okkar hlut og orðið framar öðrum þjóðum á þeim vettvangi.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að Landssíminn var mjög sjálfráða um það hvernig hann hagaði sínum fjárfestingum. Þó kom að því í vissum tilvikum að ýtt var á hann. Ég minni t.d. á ljósleiðarann, þegar gengið var til samstarfs við varnarliðið um að hefja hér ljósleiðaravæðinguna. Ég minni á það þegar tekin var ákvörðun um það að jafna símakostnað og ég minni á að þingmenn dreifbýlisins hafa um áratugi talað um að verðskrá Landssímans væri ósanngjörn.