Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 12:00:00 (8297)

2001-05-19 12:00:00# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. samgrh. áðan að hann ræddi um grunnnetið og þau orð sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson lét falla um það. Í samgn. spurðum við alla sem komu á fund nefndarinnar mikið út í grunnnetið. Við höfum farið í gegnum alla þessa þætti við fyrri umræður og ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem þar kom fram frekar en hæstv. samgrh.

Hæstv. ráðherra vitnaði í álit prófessors sem skrifaði kafla um grunnnetið í einkavæðingarbókina. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki nauðsynlegt að greina netið frá fyrirtækinu og að það gæti orðið baggi á ríkissjóði. Ég vil nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, og spyrja hæstv. samgrh. um þetta. Við gátum ekki fengið áðurnefndan prófessor til nefndarinnar því hann er staddur úti í Ameríku. Nú veit ég ekki hvort þessi prófessor býr þar. Mig minnir þó að það hafi komið fram við 2. umr. að þar væri hámenntaður prófessor sem starfaði á þessu sviði í Ameríku. Í því spretthlaupi sem samgn. fór yfir þetta mál var alls ekki hægt að fá álit frá þessum manni eða fá hann á fund. Getur verið, ef þetta er rétt, að þessi prófessor sé dálítið markaður af samkeppnisumhverfinu í Ameríku? Um þetta spyr ég vegna þess að það hefur alltaf verið sagt að samkeppnin mundi tryggja hag notenda. Ég hef sagt að það verði ekki samkeppni á stórum hluta landsins á þessu sviði. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. samgrh. út í þetta: Getur verið að þessi skoðun sé mörkuð af miklu stærra þjóðfélagi en Íslandi?