Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:19:35 (8321)

2001-05-19 14:19:35# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þessi skýrsla sýnir að mikið er í húfi að Samkeppnisstofnun í nafni neytenda sýni einokunarrisunum klærnar en þeir óttast ekkert frekar en öfluga og virka samkeppnislöggjöf sem er ógn við þá fákeppni sem má í allt of miklum mæli sjá í atvinnulífinu í krafti markaðsráðandi stöðu stórra fyrirtækjablokka. Þar er farvegur fyrir einokun, hringamyndun og fákeppni sem stuðlar að nútímalénsveldi og söfnun auðs og valds á fárra manna hendur. Slík þróun gengur gegn hagsmunum neytenda og ýtir undir misskiptingu eigna og tekna í þjóðfélaginu.

Fákeppni og einokun í matvöruverslun og á grænmetismarkaði eykur skuldir heimilanna og dregur niður lífskjörin og er ein helsta skýring þess að Íslendingar greiða næsthæsta verð á nauðsynjavöru af OECD-löndunum. Eitt brýnasta verkefnið á þeim vettvangi er að kortleggja verðmyndun á matvörumarkaðnum, ekki síst kostnað birgja og milliliða.

Í skýrslunni er vakin athygli á auknum hlut fyrirtækjablokka í útgerð og hvernig þar spyrðast saman hagsmunir í öðrum atvinnugreinum í gegnum ótrúlega gagnkvæm stjórnunar- og eignatengsl sem má víða sjá í skýrslunni. Kolkrabbinn teygir sig þar víða og full ástæða til að ætla að næst verði gerð einokunaratlaga að bankakerfinu, sem stjórnarflokkarnir virðast ætla að setja á útsölu sem mun ýta undir einkavinavæðinguna og þar með fákeppni á fjármálamarkaði.

Ógnvænlegt er ef markaðsráðandi aðilar í stórum fyrirtækjasamsteypum fá nú ráðandi ítök í bankakerfinu. Einnig er ástæða til að óttast hvernig samþjöppun eykst hröðum skrefum á sviði margmiðlunar, með ljósvakafjölmiðlum og í upplýsingaiðnaði, sem er alvarleg ógn við lýðræðið.

Ég vil hvetja til þess að úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í atvinnulífinu verði fastur liður í starfsemi Samkeppnisstofnunar og full ástæða er til að efh.- og viðskn. taki þessa skýrslu til umfjöllunar og leggi mat á innihald hennar því skýrslan staðfestir ótvírætt að samþjöppun valds, óeðlileg og gagnkvæm hagsmuna- og stjórnartengsl, ríkja allt of víða í atvinnulífinu.