Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:47:14 (8349)

2001-05-19 15:47:14# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir það starf sem hún hefur unnið við þetta frv. á skömmum tíma og vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið, en hér hefur verið skipst á skoðunum um nokkur mikilsverð atriði. Ég ætla ekki að lengja hana mikið, en örfá atriði vil ég árétta áður en þessari umræðu lýkur.

Ég vil árétta það að hér er um skref að ræða. Það má deila um það hvort þetta er umtalsvert skref. Ég ætla ekki í sjálfu sér að halda langa ræðu um það. En alla vega og í öllu falli eru nefndarmenn sammála um að hér sé um skref að ræða í rétta átt. Ég vil taka það fram að uppreikningur launa með hliðsjón af launaþróun fer fram við gerð fjárlaga hverju sinni, en hér er um sérstaka afmarkaða aðgerð að ræða.

Það atriði sem mér þykir mikilsvert og vil sérstaklega árétta varðandi þetta er að hér er verið að minnka skerðingar vegna atvinnutekna öryrkja. Mér finnst það jákvætt skref og fagna því að það er stigið í þá átt og það verður fróðlegt að vita hvaða áhrif það hefur. Við verðum að meta áhrifin af því þegar þau koma í ljós.

Ég vil ítreka það að í heilbrrn. mun verða farið yfir það á næstu vikum hvernig við eigum að halda áfram þessari endurskoðun laganna. Til greina kemur að endurskoða ákveðna þætti eða halda áfram heildarendurskoðun. Ég er ekki tilbúinn með endanlega ákvörðun í því efni á þessu stigi en ég hef hug á að fara vel yfir þau mál. Ég vil undirstrika að ég vil hafa sem best samráð um það við samtök aldraðra og öryrkja.

Mér þykir leitt ef kynning þessa máls hefur ekki verið sú sem ég ætlaðist til en þetta mál fór út á netið í heilbrrn. strax og það var tilbúið. En það er rétt hjá hv. 15. þm. Reykv. að skýrslan var ekki tilbúin þegar ég kallaði á fulltrúa þessara aðila til viðræðu. Ég vildi gera það í tíma. En skýrslan var ekki komin úr prófarkalestri þegar ég kallaði þá til fundar. Hún fór strax út þegar hún var tilbúin. Dreifing hennar er hins vegar ekki á vegum míns ráðuneytis þannig að ég get ekki svarað fyrir um það á þessari stundu hvernig henni var dreift. Ég vona eigi að síður að þær upplýsingar sem hún gefur hafi farið út til aðila þannig að allir hafi getað kynnt sér þetta áður en nefndin lauk störfum sínum.

Ég hef í raun ekki meiru við að bæta núna á þessu stigi. Ég vildi árétta þessi atriði og varðandi einföldun þessa kerfis. Það hefur verið tekið fram réttilega að þetta sé flókið kerfi og ég tek undir það. Það er það vissulega. En það markmið sem nefndin hafði með því að flýta sínum störfum og með því að koma til móts við þá sem verst voru settir samrýmdist kannski ekki endilega því markmiði að einfalda kerfið. Það verður að halda þessari endurskoðun almannatryggingalaganna áfram og ég hef vilja til þess að gera það og hafa samráð við þá aðila, aldraða og öryrkja, í því efni.