Þjóðminjalög

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 16:42:26 (8364)

2001-05-19 16:42:26# 126. lþ. 129.30 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Við 1. umræðu um frv. til þjóðminjalaga sem hér liggur nú fyrir til 2. umræðu varð þess vart í umræðunni að þegar var kominn upp nokkur kurr meðal þeirra fræðimanna sem við lögin eiga að búa vegna þess að það hafði verið nær einróma ósk þeirra sem starfa að fornleifarannsóknum þegar lögin voru á undirbúningsstigi að stjórnkerfi þjóðminjavörslunnar yrði gert skýrara og skilið á milli fornleifaþáttarins og safnaþáttarins, en ekki hafði verið orðið við þeim óskum þegar frv. var sett í endanlega gerð áður en það var lagt fram á hv. Alþingi. Það var einnig ljóst er farið var yfir umsagnir í hv. menntmn. að mjög margir umsagnaraðilar tóku undir þessi sjónarmið, bæði þeir sem tengdust fornleifaþættinum og einnig heyrðust þær raddir úr röðum safnamanna.

Þegar nefndin hafði unnið með málið í nokkrar vikur og farið mjög vel yfir umsagnir og tekið á móti fjölmörgum gestum og aftur var farið að ræða hvernig málið skyldi afgreitt varð ljóst að nokkuð breið samstaða var um það innan nefndarinnar að stíga það skref til fulls að skilja á milli fornleifaþáttarins og safnaþáttarins og gera í framhaldi af því viðamiklar breytingar á frv. til að samræma það þessum grundvallarbreytingum. Það var samdóma álit nefndarinnar að þetta gerði lögin skýrari en þau voru í frv. hæstv. menntmrh. og að mun heppilegra sé að það komi fram í lögum hver raunveruleg skipting þjóðminjavörslunnar sé í dag, annars vegar í fornleifaþátt og hins vegar í safnaþátt, þannig að ljóst sé hvernig ábyrgð er skipað í hvorum þætti um sig. Það verður til að greiða fyrir allri stjórnsýslu og framkvæmd.

Samþykkt var að taka út orðið ,,þjóðminjavörður`` í 2. málslið 2. gr. og setja í staðinn ,,Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins``, þ.e. að þau annist framkvæmd þjóðminjavörslunnar, og bæta svo inn nýjum lið svohljóðandi:

,,Þjóðminjavörður og forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins starfa saman að mörkun stefnu og gerð langtíma\-áætlunar um þjóðminjavörsluna í heild.``

Segja má að með þessum breytingum sé stefnan þegar mörkuð sem gengur síðan eins og rauður þráður í gegnum frv.

Í framhaldi af þessu kemur svo algjörlega ný 3. gr. sem skilgreinir ráðningarkjör forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins svo og hlutverk stofnunarinnar. Greinin hljóðar svo eftir breytingar, með leyfi hæstv. forseta:

[16:45]

,,Menntmrh. skipar forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins til fimm ára í senn. Þá eina má ráða í embættið sem hafa sérfræðimenntun í fornleifafræði eða minjafræði og hafa reynslu af stjórnunarstörfum.

Fornleifavernd ríkisins fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna. Fornleifavernd ríkisins er söfnum og öðrum hlutaðeigandi aðilum til ráðgjafar um varðveislu og kynningu menningarsögulegra minja er heyra undir starfssvið hennar. Fornleifavernd ríkisins hefur eftirlit með öllum fornleifarannsóknum og er hlutaðeigandi aðilum til ráðgjafar um skráningu, rannsóknir og varðveislu fornleifa.``

Í umfjöllun nefndarinnar komu fram margar ábendingar um að það ákvæði í 3. mgr. 4. gr. að Félag íslenskra fornleifafræðinga tilnefni tvo fulltrúa í fornleifanefnd gæti ekki staðist þar sem fornleifafræðingar væru í tveimur félögum. Nefndin ákvað að bregðast við þessum ábendingum með því að orða greinina svo að félög fornleifafræðinga tilnefni tvo fulltrúa í nefndina.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir að breyta skilgreiningum á því hvað felist í þjóðminjavörslu frá því sem nú er gert í gildandi lögum. Mikil sátt virðist ríkja um þau lagaákvæði sem hingað til hafa ríkt um hvað felist í þjóðminjavörslunni. Þó verða nokkrar breytingar á 8. gr. frá upphaflega frv. auk þess sem aðkoma Fornleifaverndar ríkisins að málinu er skýrð, kveðið á um að í Reykjavík fari borgarminjavörður með minjavörslu en það hafði ekki verið tilgreint sérstaklega í upphaflega frv. og höfðu verið gerðar athugasemdir við það.

Rétt er að vekja athygli á því að menntmn. leggur til töluverðar efnislegar breytingar á 11. gr. þar sem kveðið er á um umfang fornleifaskráningar og að þau séu skýr á öllum stigum skipulags og klárt hver eigi að standa straum af kostnaði við skráninguna.

2. mgr. 11. gr. hljóðar svo eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar:

,,Skylt er að fornleifaskráning fari fram áður en gengið er frá svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi eða endurskoðun þess`` --- og svo bætist við --- ,,og skal sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög standa straum af kostnaði við skráninguna.``

Að mínum dómi eru gerðar mjög mikilvægar breytingar á 12. gr. frv. þar sem kveðið er mun skýrar á en áður hefur verið um tilkynningarskyldu vegna fornleifa sem talið er að liggi undir skemmdum. Það komu fram ógnvekjandi upplýsingar við umfjöllun nefndarinnar um fornleifar sem hafa spillst eða týnst á undagengnum árum við ýmiss konar jarðrask og virðist ekki vanþörf á að skerpa þau ákvæði sem um þetta gilda.

En greinin hljóðar svo með áorðnum breytingum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Fornleifavernd ríkisins viðvart. Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal viðkomandi sveitarfélag eða framkvæmdaraðili gera Fornleifavernd ríkisins viðvart með hæfilegum fyrirvara. Fornleifavernd ríkisins ákveður að höfðu samráði við Náttúruvernd ríkisins hvort rannsóknar er þörf, hvort friðlýsa beri viðkomandi stað eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum.``

Talið var skýrara í uppsetningu að skipa öllum þeim greinum frv. sem fjalla um fornleifarannsóknir í eitt ákvæði og því var hluti 10. gr. í frv. fluttur yfir í 15. gr. sem hljóðar svo eftir þær breytingar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fornleifavernd ríkisins annast eftirlit með rannsóknum á fornleifum í landinu.

Með fornleifarannsókn er átt við hvers kyns jarðrask sem fram fer í vísindalegum tilgangi og með það að markmiði að rannsaka jarðfastar fornleifar sem þegar er vitað um eða líklegt er að finnast muni, eða að ganga úr skugga um hvort um þess háttar fornleifar sé að ræða á rannsóknarsvæðinu.

Þegar Fornleifavernd veitir leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna, sbr. 2. mgr. 6. gr., skal þess gætt að stjórnandi þeirra hafi tilskilda menntun í fornleifafræði. Skal leyfi vera skriflegt hverju sinni og sá sem slíkt leyfi fær hlíta þeim reglum sem Fornleifavernd ríkisins setur þar að lútandi, svo sem um skil á rannsóknarskýrslum og birtingu þeirra og um skil á gripum sem finnast við rannsóknina, sbr. 18. gr.

Fornleifavernd ríkisins skal taka afstöðu til framkominna umsókna um rannsóknarleyfi svo fljótt sem við verður komið.

Fornleifavernd ríkisins skal leitast við að bjóða út þær fornleifarannsóknir sem hún telur nauðsynlegar á hverjum tíma.``

Eins og áður var getið bárust nefndinni vísbendingar um að nauðsynlegt væri að breyta því ákvæði um skipan bæði fornleifanefndar og fornleifasjóða að gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. að fulltrúar fornleifafræðinga í stjórnun þessarar annars vegar nefndar og hins vegar sjóðs kæmu frá einungis öðru félagi fornleifafræðinga. Nefndin kaus, eins og áður hefur verið sagt frá, að taka ekki fram í lagatexta frá hvaða félagi fornleifafræðinga ætti að tilnefna í fornleifanefnd. Þess vegna er lagt til í frv. að félög fornleifafræðinga tilnefni í fornleifanefnd í 4. gr. og að fornleifasjóður verði skipaður m.a. einum fornleifafræðingi samkvæmt tillögu menntmrh. en með áorðnum breytingum orðist 1. mgr. 24. gr. um fornleifasjóð svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fornleifasjóður hefur það hlutverk að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornleifum og forngripum. Menntmrh. skipar fornleifasjóði þriggja manna stjórn sem úthlutar úr sjóðnum styrkjum til rannsóknar- og varðveisluverkefna og ber stjórnin ábyrgð á umsýslu sjóðsins. Menntmrh. setur sjóðnum sérstakar úthlutunarreglur. Stjórn fornleifasjóðs skal þannig skipuð: Einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera fornleifafræðingur. Menntmrh. skipar formann úr hópi stjórnarmanna.``

Í 29. gr. laganna er gerð tillaga um almenna reglugerðarheimild sem kveði m.a. á um samstarf Fornleifaverndar ríkisins, Þjóðminjasafns Íslands og húsafriðunarnefndar, og veltur auðvitað mikið á um farsælt framhald þessara mála að vel takist til um þá reglugerð og haft verði víðtækt samráð við fagaðila um þá tilurð.

Af sjálfu leiðir að gerðar eru tillögur um ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að starfandi þjóðminjavörður gegni embætti sínu í allt að þrjá mánuði frá gildistöku laganna eða þar til skipað hefur verið í nýtt embætti þjóðminjavarðar og forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins og einnig um að starfsmenn Þjóðminjasafns muni halda öllum starfsréttindum sínum óbreyttum, þar með töldum réttindum sem byggjast á starfs- og þjónustualdri annaðhvort hjá Fornleifavernd ríkisins eða hjá Þjóðminjasafni Íslands og að breytingar á starfsröð sem lög þessi hafa í för með sér feli því ekki í sér niðurlagningu starfa þeirra í skilningi starfsmannalaga, nr. 70/1996.

Við sem erum fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. menntmn., ég og hv. þm. Einar Már Sigurðarson, erum í heild sátt við þær breytingar á þjóðminjalögum sem verða ef þetta frv., með þeim breytingum sem ráðgerðar eru á því frá því það var lagt fram, verður að lögum. Við teljum að þessi lagabreyting geti orðið grundvöllur meiri sátta innan greinarinnar en hefur virst vera raunin á undanförnum árum. Það þýðir þó ekki að enn megi ekki gera betur og væntanlega verður löggjöfin endurmetin þegar reynsla er komin á breytingarnar.

Hitt er annað og það snýr að fjárveitingavaldinu, að of naumt hefur verið skammtað fé til fornleifarannsókna af hálfu ríkisins á undanförnum árum og þarf þar að gera verulegt átak. Spennandi verður að fylgjast með hvort í kjölfar þessara skipulagsbreytinga sem við erum að ráðgera hér muni fylgja aukið fjármagn í þennan geira úr ríkissjóði. Það færi vel á því og ekki skal skorta minn stuðning ef lagðar verða fram tillögur í þessa veru við afgreiðslu fjárlaga.