Sjóvarnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:06:02 (8376)

2001-05-19 18:06:02# 126. lþ. 129.17 fundur 319. mál: #A sjóvarnaáætlun 2001--2004# þál. 27/126, JB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. um till. til þál. um sjóvarnaáætlun, sem hv. formaður samgn. hefur gert grein fyrir, með fyrirvara. Fyrirvarar mínir lúta að því að komið hafa fram óskir frá sveitarfélögum og ýmsum aðilum um meiri framlög og til fleiri verkefna en hér eru talin upp og hafa fengið rúm í þeirri áætlun sem hér er lögð fram.

Þessi áætlun er unnin á þann hátt að nokkuð er vegið saman það fjármagn sem ætlað er til verkefna og síðan eru þær óskir eða beiðnir sem koma felldar að því.

Ég tel að mörg verkefni sem eru brýn hefðu mátt og átt að koma þarna inn í áætlunina. Það er víða vandi vegna ágangs sjávar og brims sem hefði þurft að taka tillit til. En það sem lagt er til í tillögunni eru allt saman góð og gild verkefni og hef ég ekkert út á þau að setja en bendi á að það er miklu meiri þörf og hefði verið ástæða til að þessi málaflokkur fengi meira fjármagn til að sinna þeim verkefnum sem þarna eru brýn.