2001-05-19 19:29:12# 126. lþ. 129.20 fundur 619. mál: #A samningur um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT)# þál. 30/126, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:29]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég skila minnihlutaáliti og það varðar það að ég tel að ekki sé farið alveg rétt í að ganga frá þátttöku Íslendinga í þessu samstarfi úr því að þessar breytingar eru þarna að verða eða áorðnar og hefði auðvitað fyrst átt að taka afstöðu til þess hvort fulltrúar Íslands á vettvangi þessa samstarfs INMARSAT vildu gera þessar breytingar að einkavæða reksturinn og má nú segja að fátt er mönnum heilagt því þetta kerfi var nú byggt upp af opinberum aðilum til þess að tryggja fjarskipti, alheims-, neyðar- og öryggiskerfi fyrir siglingar og hefur þjónað tilgangi sínum vel. Íslendingar gerðust aðilar að því fyrir rúmum áratug og eiga í þessu fyrirtæki eða þeim búnaði og þeim rekstri sem þarna er.

En menn fundu náttúrlega út úr því að það væri alveg lífsnauðsynlegt að einkavæða þetta eins og alla aðra skapaða hluti en rákust hins vegar á að það væri nú kannski dálítið glannalegt að gera það alveg sisvona, henda þessu í hendurnar á einhverjum einkaaðilum, og skildu þar af leiðandi eftir inni í fyrirtækinu, hinu einkavædda fyrirtæki kvaðir, einhvers konar hlutabréf má segja, sem er þekkt fyrirbæri og leggur kvaðir á herðar hinu einkavædda fyrirtæki. Og INMARSAT-samstarfið, sem eftir mun standa sem milliríkjasamstarf, samtök eða stofnun, getum við sagt, hefur með tilteknum hætti íhlutunarrétt í reksturinn hjá hinu einkavædda fyrirtæki.

Og þá er að því að hyggja, herra forseti, að þarna eru inni nokkrar eignir sem verða stofnfé hins nýja einkavædda fyrirtækis og hér hefur verið valin sú leið að láta fyrirtækið Landssímann hf. halda þeim eignarhlut. En nú háttar einmitt þannig til þessa dagana, herra forseti, að við erum að ræða um einkavæðingu á því hinu sama fyrirtæki líka, sem fer þá með eignarhald Íslendinga, ríkiseignina, sem varð til á sínum tíma í gegnum ríkisfyrirtækið Póst og síma, færast yfir í hið einkavædda fyrirtæki, Landssímann.

Um þetta hef ég efasemdir og ég hefði talið að hyggilegra hefði verið eða a.m.k. hefði átt að skoða það rækilega að ganga þannig frá þessu að íslenska ríkið ætti þá eignaraðildina að INMARSAT hf. auk þess að taka þátt áfram í INMARSAT-samstarfinu eða INMARSAT-stofnuninni.

Með vísan til þessa, herra forseti, og þeirra ráðagerða að einkavæða Landssímann, sem því miður lítur út fyrir að verði að veruleika innan skamms ef Alþingi ber ekki gæfu til að fella það mál eða stöðva afgreiðslu þess, þá get ég ekki stutt þetta mál.