Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 19:40:38 (8413)

2001-05-19 19:40:38# 126. lþ. 129.22 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál. 32/126, SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[19:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil í fáeinum orðum þakka félögum mínum í utanrmn. undir forustu formanns utanrmn., Tómasar Inga Olrichs, sem hér talaði áðan, fyrir samstöðuna sem tókst um afgreiðslu þessa máls. Mér þykir vænt um það að eftir þá löngu sögu sem þetta mál á orðið hér í þinginu og ítrekaðan endurflutning þessarar tillögu, sem sennilega hefur verið hér á einum sjö þingum, skuli hún að lokum fá afgreiðslu í þessu formi. Ég er sáttur við afgreiðslu málsins. Ég er sáttur við orðalag tillögunnar og tel að þar hafi náðst góð málamiðlun. Það sem fyrir mér hefur vakað allan tímann er, í ljósi bágs ástands og bágra aðstæðna alls almennings, að þessir hlutir yrðu endurmetnir og reynt að leita leiða hvað varðar framkvæmd þessara aðgerða sem síður bitnuðu á lífskjörum almennings og aðstæðum, enda hörmulegar fyrir eins og hér kom fram áðan.

Ég flutti fyrir nokkrum árum tillögu svipaðs eðlis á vettvangi Norðurlandaráðs og hún naut þá allvíðtæks stuðnings, náði að vísu ekki afgreiðslu en var hins vegar talsvert til umfjöllunar. Málin voru þá skoðuð, m.a. út frá almennum grundvallarviðmiðum um beitingu tækja í alþjóðastjórnmálum af þessu tagi og ýmis vandamál sem því eru samfara. Það er ákveðið svið hins alþjóðlega réttar sem er nú mjög til umræðu og mér þykir líklegt að framhald verði þar á þannig að menn muni á komandi árum leita leiða til þess að betrumbæta viðskiptaleg tæki sem lið í alþjóðastjórnmálum og því að knýja fram úrbætur á sviði mannréttindamála eða á öðrum sviðum þar sem menn telja slíkra þörf. En ljóst er að beiting þessara tækja er vandasöm og getur birst í ýmsum afleiðingum sem ekki eru allar jákvæðar.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum fagna því að nú hillir væntanlega undir það seint og um síðir að einmitt þetta gerist sem tillagan gengur út á og hefur alla tíða gengið út á. Nýjustu fréttir eru þær að Bandaríkjamenn og Bretar hyggist nú sjálfir leggja fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, væntanlega í og með vegna þeirrar hreyfingar sem Norðmenn með sínu nýfengna sæti í öryggisráðinu hafa komið á málin, tillögu um breytingu á þessum aðgerðum sem ganga mjög í þá átt sem hér er reifuð af utanrmn. í nál., þ.e. að leita leiða til þess að beina aðgerðunum markvissar að því að hindra að ógnarstjórn Saddams Husseins komi sér upp gereyðingarvopnum og ógni enn frekar en nú er stöðugleika á þessu svæði, ef hægt er að tala um stöðugleika því að hann er víst ekki mikill um þessar mundir, alla vega ekki ef litið er til svæðisins í heild, samanber hinar hörmulegu fréttir frá Ísrael og Palestínu þessa dagana.

Að allra síðustu vil ég segja að það var mikið gleðiefni að Norðmenn skyldu með stuðningi hinna Norðurlandanna ná sínu sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ég held að þeir hafi nú þegar sýnt þar með störfum sínum að smáþjóðir geta haft mikil áhrif og geta komið hlutum á hreyfingu. Þeim hafa þegar verið falin mörg mikilvæg og ábyrgðarmikil verkefni í tengslum við setu sína í öryggisráðinu og það verður fróðlegt Íslendingum að fylgjast með hvernig þeir hlutir ganga fyrir sig, ekki síst í ljósi þess að við höfum sett stefnuna á að taka sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í fyrsta sinn ef við fáum til þess brautargengi að nokkrum árum liðnum.

Herra forseti. Ég lýsi enn á ný ánægju minni með að þeirri löngu baráttu sem í þessu máli hefur staðið hér af minni hálfu er að nú að ljúka farsællega.