Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:22:44 (8441)

2001-05-19 21:22:44# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:22]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður er formaður sjútvn. Hann neitaði að halda fund í nefndinni í dag til þess að afgreiða út það mál þar sem lagt var til að gildistöku þessara laga yrði frestað, hann neitaði því. Honum ferst eins og Framsfl. í þessu máli. Framsfl. hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hann vilji fresta þessu máli, fresta því að settur verði kvóti á smábátana. Hann hefur gefist upp. Hv. þm. Hjálmar Árnason talaði áðan. Það var auðséð að honum þótti ekki gott að sitja eftir með þetta svona en þeir gerðu það samt. Framsfl. leggur sig undir það að láta málin vera eins og þau eru, láta lögin ganga yfir smábátana.

Ung var ég gefin Njáli, sagði Bergþóra, og skreið undir feldinn með honum á meðan þau brunnu síðan inni í Njálsbrennu. Þar sem það er uppáhaldsiðja hv. þm. á Alþingi að vitna í þessa bók, þá dettur manni það stundum í hug þegar Framsfl. á í hlut og samstarf hans við Sjálfstfl. Sjálfstfl. er þannig að í honum er einbeittur vilji að einkavæða þjóðarauðlindina. Það hefur legið fyrir árum saman. Því er verið að fylgja fram hér. Hér er eitt skrefið stigið til að loka kerfinu, til þess að gera allt að eign, ekki bara kvótann heldur líka hvern dag sem á sjó er farið og framseljanlegt skal það vera og seljanlegt milli manna til þess að einkavæða auðlindina.

Maður hélt í vetur að Framsfl. ætlaði að fara að stíga í lappirnar í þessu máli. Þeir héldu fund og lýstu yfir ýmsu í sambandi við það hvernig þeir ætluðu að standa að endurskoðuninni. Ég heyrði að það er komið fram. Hæstv. sjútvrh. sagði síðan í sinni aumlegu ræðu áðan að þetta væri ekki hægt út af stjórnarskránni. Hefði þá ekki verið kominn tími til að biðja hæstv. forseta að skrifa bréf til Hæstaréttar og komast að því? Það hefði ekki tekið nema 2--3 tíma að fá botn í málið.