Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:25:08 (8442)

2001-05-19 21:25:08# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:25]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég hef andstyggð á því hvernig stjórnarmeirihlutinn tekur á málefnum smábátaeigenda. Í ræðu, á fundum og í riti hafa lykilmenn stjórnarflokkanna úttalað sig út um allt land í marga marga mánuði og sagt mönnum að þeir muni berjast af krafti fyrir því að þeir haldi hlut sínum. Ég hef verið á mörgum slíkra funda. Ég hef lesið margar slíkar greinar. Sjáið þið svo stöðuna í dag. Þessir menn eru ekki einu sinni í salnum við umræðuna. Þetta er ekki boðlegt.

Virðulegi forseti. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vildum úr því sem komið var fresta gildistöku laganna um eitt ár. Það var ,,fair play`` eins og menn segja, sérstaklega í ljósi þess að endurskoðunarnefndin um sjávarútvegsstefnuna hefur ekki komist að neinni niðurstöðu og er enn að störfum og á langt í land. Ekki þarf að fjölyrða um það peningalega fyrir einstaklingana sem eru í útgerðinni og ég tala ekki um fyrir byggðarlögin, þá erum við að framkalla stórtjón. Þetta vitum við öll. En ég vil sérstaklega beina orðum mínum til stjórnarþingmanna sem hafa gefið þessar fölsku vonir. Þetta er ekki réttlætanlegt. Ef menn hafa ekki meira undir sér en þetta þar sem menn hafa úttalað sig mjög klárlega, lykilmenn í flokkunum, mjög klárlega í marga mánuði. Þetta er ekki hægt, þetta er ekki boðlegt. Og að vera síðan ekki við umræðuna.

Virðulegi forseti. Ég skammast mín fyrir hvernig við hv. þm. stöndum að þessu máli gagnvart einum veigamesta útgerðarflokki landsins.