Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 16:00:31 (405)

2000-10-11 16:00:31# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í heita pottinum í Degi í morgun segir að það hafi vakið óskipta athygli að Björn Bjarnason hafi nú ráðið mann í stjórnunarstöðu hjá Ríkisútvarpinu sem er ekki flokksbundinn sjálfstæðismaður.

Umfjöllun á þessum nótum segir sitt um viðhorf til Ríkisútvarpsins og í hvaða stöðu hæstv. ráðherra hefur komið því með beinum eða óbeinum afskiptum sínum. En Ríkisútvarpið er ekki bara í kreppu vegna pólitískra afskipta. Ríkisútvarpið er fjárhagslega aðkreppt sem veldur sífelldri sókn þess á auglýsinga- og kostunarmarkaðinn og framtíðarstaða Ríkisútvarpsins er óljós.

Frumvarpið um RÚV og þar með áætlanir ríkisstjórnarinnar um framtíð þess sem menntmrh. og formaður Framsfl. véla nú um að sögn hæstv. menntmrh. er hvergi og allt er í óvissu um rekstrarform, um tekjur og um framtíðarmöguleika. Á tímum örra breytinga í fjarskiptamálum og á fjölmiðlamarkaði er Ríkisútvarpið því eins og hornkerling í búi ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Almenningsútvarp verður að geta tekið breytingum í takti við þann fjölmiðlaveruleika sem það býr við. En það frelsi sem stjórnendur og starfsfólk þyrfti að hafa við nýjar aðstæður er ekki komið á dagskrá, er enn í pólitískum hnút ríkisstjórnarinnar.

Við í Samfylkingunni erum tilbúin til að fara vandlega yfir þær leiðir sem duga til þess að Ríkisútvarpið geti sinnt myndarlega þeim miklu menningarlegu skyldum sem það hefur og á að hafa og verða sífellt mikilvægari fyrir samfélag okkar, þar sem við viljum áfram sjá menningarlega fjölbreytni. En sú spurning stendur á hæstv. ráðherra að svara hvernig hann vill mæta og hvernig á að mæta þeim kröfum sem til Ríkisútvarpsins eru gerðar á sama tíma og að því virðist þrengt á flestum sviðum.