Ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:15:01 (1064)

2000-11-01 14:15:01# 126. lþ. 18.91 fundur 80#B ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Forseti má ekki misskilja orð mín þannig að ég sé að gagnrýna hans stjórn hér á þinginu. Því er alls ekki til að dreifa. Það sem ég gerði hér áðan var að vekja athygli á þeim sjónarmiðum sem fram koma af hálfu formanns stærsta þingflokksins hér á hinu háa Alþingi, þingflokks Sjálfstfl. með 26 þingmenn, sem er jafnframt í ríkisstjórnarsamstarfi og hefur þar af leiðandi talsvert um það að segja hvernig mál ganga hér fram. Ég var að lýsa viðhorfum mínum til þess og viðbrögðum hæstv. forseta til þess hvort óeðlilegt væri að taka á dagskrá málefni á borð við þau sem ég nefndi hér til sögu. Ég er ekki að framlengja efnislega umræðu og ætla ekki að gera það. Ég var að leita eftir viðhorfum forseta til þessa. Ef þau liggja ekki fyrir þá er það bara þannig.

Ég vil hins vegar láta það koma skýrt fram að ég tel þau sjónarmið sem hv. þm., formaður þingflokks Sjálfstfl., kom fram með gersamlega út úr korti og segja í raun allt um viðhorf forsvarsmanns þessa stærsta þingflokks hér á hinu háa Alþingi til þessarar samkomu, að ekki megi ræða stórmál á borð við þau sem ég nefndi áðan.