Flutningur á félagslegum verkefnum

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:40:17 (1082)

2000-11-01 14:40:17# 126. lþ. 18.2 fundur 139. mál: #A flutningur á félagslegum verkefnum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Þetta hafa verið afar athyglisverð svör og innlegg af hálfu formanns nefndarinnar. Margt af því sem hæstv. forsrh. gat um í svari sínu til mín þekkti ég að sjálfsögðu þar sem á þeim þremur fundum sem nefndin hélt var farið yfir það sem skaraðist á milli ráðuneytanna og eins og hér hefur komið fram voru það mjög mörg verkefni. Mér finnst það undarlegt á sama tíma og talað er um að nauðsynlegt hafi verið að skoða verkaskiptinguna. Þessi nefnd, þar sem eingöngu tveir alþingismenn sátu, aðrir voru fulltrúar ráðuneytanna, átti að skoða þarna ákveðin mál en sú nefnd er bara látin leggja upp laupana eftir því hvernig málið snýr að mér á meðan verið er að skoða málin á öðrum stöðum. Þar vil ég nefna fréttatilkynningu sem send var út í mars á þessu ári þar sem segir frá því að menntmrh. hafi kynnt skýrslu um réttarstöðu heyrnarlausra og ákveðið að skipa nefnd skipaða fulltrúum sömu ráðuneyta og við erum að tala um til að gera tillögur um fyrirkomulag túlkaþjónustu og hvernig eigi að fara með þann kostnað. Núna fyrir örfáum dögum voru til umræðu fjáraukalög og þar kemur fram að á árunum 1995 og 1996 hafi félmrn. varið 2 millj. hvort ár úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og árið 1997 hafi heimildir verið þrengdar og fjármagni verið varið síðan til þessarar þjónustu af sameiginlegum lið ríkisstjórnarinnar en nú sé farið fram á að þessi mál séu sett í fastan farveg. Þetta er meðal þeirra mála sem nefndin góða ætlaði að taka og setja í öndvegi árið 1997 að skoða og núna árið 2000 er enn verið að skoða þessi mál.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. kveði upp úr með hvort hann með orðum sínum hér fyrir stundu hafi verið að leggja nefndina af. Það er hreinskilnislegt.