Ný stétt vinnukvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:19:18 (1100)

2000-11-01 15:19:18# 126. lþ. 18.9 fundur 126. mál: #A ný stétt vinnukvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem komu fram við fyrirspurn minni. Ég harma það að hann skyldi ekki hrinda þessari könnun í framkvæmd strax eftir að þessi jafnréttisáætlun var samþykkt. En batnandi mönnum er best að lifa og nú kemur hér fram að það er ríkur vilji til þess að til þessa hóps verði litið bæði við endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga og sömuleiðis í þeirri nefnd sem hann vísaði til áðan að var verið að setja á laggirnar til þess að fara yfir þessi mál.

Það er prýðilegt að Alþýðusambandið skuli eiga fulltrúa í þessum nefndum. Það er mjög mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins séu með í þeim ákvörðunum sem teknar eru vegna þess að það eru þeir sem oftast koma inn í svona mál ef eitthvað fer úrskeiðis og leita réttar fyrir hönd þessa fólks.

Ég sé af þeim tölum sem hæstv. ráðherra hefur nefnt hér um fjölda þessara kvenna að það hefur orðið mikil aukning á þessu ári. Ég bind vonir við að þær verklagsreglur eða þær reglur sem Alþýðusambandið og félmrn. eða Vinnumálastofnun hafa komið sér saman um að haldi þannig að það sem ég hafði hér eftir forseta Alþýðusambandsins um að misnotkun virtist vera að aukast, eigi sér ekki stað hvað varðar þennan hóp, því eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir benti á áðan, þá er þessi hópur auðvitað kannski réttminnstur og lítt sýnilegastur af því erlenda fólki sem kemur hingað til lands til að vinna.