Þátttaka Íslendinga í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:44:39 (1109)

2000-11-01 15:44:39# 126. lþ. 18.11 fundur 34. mál: #A þátttaka Íslendinga í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja að það voru mér ákveðin vonbrigði að hlýða á svar hæstv. umhvrh. Ég hafði vonast til að vinnan í ráðuneytinu væri komin það langt, varðandi þessa breytingu á útfærslu tillögunnar, að hægt væri að upplýsa Alþingi frekar um málið en hæstv. umhvrh. virðist geta. Það liggur þá kannski beint við að spyrja hæstv. umhvrh. hvort hún telji að einhverjar frekari upplýsingar kunni að verða látnar Alþingi í té áður en sendinefnd Íslands fer til Haag þann 13. nóvember.

[15:45]

Varðandi síðari spurningu mína þá hef ég sjálf fengið í þeim gögnum sem send hafa verið út um fundinn eða þingið, vitneskju um þá ráðstefnu sem ætluð er ungu fólki og ég verð að segja, herra forseti, að mér fyndist það til sóma fyrir íslensk stjórnvöld að leitast eftir því að fá að taka þátt í þeirri ráðstefnu og að hafa innan sinna vébanda ungt fólk því að hér er sannarlega um framtíðarmál að ræða.

Ég held að það væri Íslandi til framdráttar í fleiri en einu tilliti að sýna að við lítum á okkar hlutverk sem ábyrgt hlutverk fyrir kynslóðirnar sem eiga að taka við. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að almenn áhyggja ríkir í samfélagi manna sem hafa fylgst með þessum málum varðandi árangur aðildarríkja þingsins sem fram undan er vegna þess að það er þvermóðska í gangi hjá stórum þjóðum, fjölmennum þjóðum á við Bandaríkjamenn og Íslendingar eru nefndir þar í sama orði þegar rætt er um þessi mál því að það eru þjóðir sem eru ríkar og geta mögulega dregið úr losun sem ætla sér ekki að gera það. Og Íslendingar eru þeirra á meðal, herra forseti. Satt að segja er ég afar döpur yfir því.