Átak gegn fíkniefnaneyslu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:53:22 (1125)

2000-11-01 17:53:22# 126. lþ. 18.4 fundur 38. mál: #A átak gegn fíkniefnaneyslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:53]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar við tölum um þessi mál og þau markmið sem menn vilja setja sér þá er fremur óeðlilegt að menn skuli tíunda hér fjármuni umfram árangur.

Ég verð að segja, herra forseti, að þegar fyrir liggur að þó að svo mikið af efnum sé tekið í tolli en samt er svo mikið í umferð að aldrei hafa fleiri verið í meðferð en nú og enn aukning, samanber orð hæstv. ráðherra, þá hlýt ég að setja spurningarmerki við árangurinn og það veit ég að fleiri gera.

Hins vegar er kannski ekki við hæstv. heilbr.- og trmrh. að sakast í þeim efnum. Við hefðum auðvitað þurft að hafa hér hæstv. dómsmrh. til að ræða þessi mál, því þau heyra mun frekar undir hana. Það má jafnvel, herra forseti, setja spurningarmerki við áherslur hæstv. dómsmrh. í þessum efnum. Það er sannarlega ástæða til að vefengja hinn meinta árangur í þeirri miklu baráttu sem menn hafa lagt í gegn vímuefnum undanfarin ár. Árangur þyrfti að vera margfalt meiri, herra forseti.