Átak gegn fíkniefnaneyslu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:01:38 (1131)

2000-11-01 18:01:38# 126. lþ. 18.4 fundur 38. mál: #A átak gegn fíkniefnaneyslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég er fegin því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon datt ekki í þann pytt að vera á móti þessu samfélagsverkefni eins og svo mörgum öðrum verkefnum sem hér eru til umfjöllunar. En hann var rétt dottinn í þann pytt.

Það er alveg rétt sem hér hefur fram komið að það næst enginn árangur nema samfélagið sé tilbúið til að vinna saman. Það má enginn hlekkur bresta. Það vill svo til að ég talaði við sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkrum stundum og hann sagði mér að það er sú samvinna sem náðst hefur um landið allt sem er að skila árangri.

Það er nú svo skrýtið að ég hóf ekki þessa umræðu. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hóf þessa umræðu og spurði hvernig Framsfl. hefði staðið sig í þessu máli. Það er meira að segja spurning hvort það hafi verið þingleg fyrirspurn eins og hún var borin fram.

En aðalatriðið er þetta: Eru menn að ná árangri? Það er aðalatriðið. Við höfum gert kannanir hvað það varðar, gerum það reglulega og við erum að ná verulegum árangri í grunnskólanum. Og það er vegna þess að samfélagið allt hefur tekið á sig ábyrgð og foreldrar hafa tekið á sig rögg. Hann minntist á Akureyri. Ég vil minnast á Ísafjörð og ég vil minnast á Grundarfjörð. Ég vil minnast á mörg bæjarfélög þar sem samfélagið allt á stöðunum hefur tekið höndum saman og náð árangri. Þannig náum við árangri og þess vegna fannst mér svolítið sérkennileg fyrri ræða hv. þm., þ.e. hvernig hann ætlaði að tortryggja alla hluti. Svo held ég að hann hafi verið hissa á hve miklir fjármunir hafa raunverulega farið í þetta.