Áhættuhegðun karla

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:10:50 (1134)

2000-11-01 18:10:50# 126. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A áhættuhegðun karla# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið. Ég tek þó eftir því að ráðherra hefur ekki farið í það að láta vinna samkvæmt því sem fram kemur í áætlun ríkisstjórnarinnar, þ.e. að láta kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun sem þar er tilgreind.

Ég fór áðan yfir það hversu miklu algengara er að drengir og piltar verði fyrir slysum sem valda dauða og líka hvað varðar sjálfsvíg. Ég met það svo að það sem hæstv. heilbrrh. greindi okkur frá um störf landlæknis sé allt mjög í áttina. Hitt væri hins vegar mjög áhugavert ef ráðherra léti skoða þátt karlmennskuímyndarinnar, vegna þess að eins og fram kom í inngangi mínum hlýtur að liggja að baki þessum mikla kynbundna mun eitthvað sem ástæða væri til þess að skoða og ætti að skoða ef menn vilja horfa til þess að við búum báðum kynjum bærilegar aðstæður, þ.e. aðstæður sem ekki framkalla þá þessa óæskilegu hegðun.

Ég tek eftir því hjá hæstv. ráðherra að áherslan liggur mjög í fræðslu- og forvarnastörfum. Það er mjög gott og í samræmi við það sem ég þykist hafa lesið að geti borið árangur þegar sjálfsvíg eru annars vegar. Varðandi slysaskráninguna hins vegar sem hún gat um áðan fannst mér ekki alveg koma fram hjá ráðherra hvort þessi slysaskráning er kynbundin. Getur ráðherra svarað því? Vegna þess ef svo er erum við auðvitað að fá tæki til mun betri skráningar en verið hefur.