Rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:18:16 (1162)

2000-11-01 19:18:16# 126. lþ. 18.16 fundur 62. mál: #A rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:18]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er nefndin að störfum. Hún hefur ekki lokið störfum og mun skila tillögum sínum. Við munum halda þessu verki áfram. Þetta er ekki verk sem unnið verður í einni lotu og því lýkur aldrei. Þarna eru mörg álitamál, t.d. spurningin: Á að greina milli kynja í skólum eða greina á milli getu skólabarna og annað slík? Þetta eru álitamál sem þarf að skoða. Við í menntmrn. höfum ekki lokað neinum dyrum í því efni.

En ég vil aðeins árétta það að ég fór ekki með rangt mál, fsp. sjálf er orðuð með allt öðrum hætti en ályktun Alþingis. Ályktun Alþingis sagði að fyrst ætti að fara fram rannsókn og síðan, á grundvelli þeirrar rannsóknar, ætti að kanna hvort tímabundin aðgreining kæmi til greina. En spurningin er:

,,Hefur ráðherra látið fara fram rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu og látið kanna hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi tryggi betri námsárangur eða líðan þeirra, ...`` Þarna er greinilega um mun að ræða, fsp. er með öðrum hætti en ályktunin og raunar einkennilegt að ég þurfi að ræða þetta sérstaklega við hv. þm. og fyrirspyrjanda sem hlýtur að sjá þetta ef hann les ályktunina.

Þetta mál er sem sagt í góðum farvegi að mínu mati á vegum menntmrn. Í skólakerfinu starfar áhugasamt fólk á þessu sviði og það á að veita því stuðning eftir því sem unnt er. Ráðuneytið hefur gert það með þróunarstyrkjum. Við höfum haft það sem markmið við slíkar styrkveitingar að styrkja jafnréttisfræðslu og átak í jafnréttismálum. Við sem störfum á þessum vettvangi á vegum ráðuneytisins erum vel meðvituð um að hér er um mikilvægan málaflokk að ræða sem þarf að hafa auga með.