Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:35:11 (1170)

2000-11-01 19:35:11# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:35]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það ber að fagna þessari skýrslu sem hér var lögð fram einmitt undir þeim umræðulið sem hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hóf. Menntmrh. hefur lagt hér fram athyglisverða skýrslu.

Í viðtali við sveitarstjórnarmann ekki fyrir löngu mátti heyra þau orð hans að það væri allt í lagi að tapa fyrir Reykjavíkurvaldinu í einhverjum málum en alls ekki fyrir nágrannasveitarfélagi. Hér stendur einmitt í skýrslu samstarfshóps um menningarmál á landsbyggðinni:

,,Lítil samvinna og skortur á samstöðu er víða til vandræða. Fundir okkar leiddu oft saman hóp sem vinnur að menningarmálum á ákveðnu svæði, en var þarna jafnvel að hittast í fyrsta sinn. Sambandsleysið gat verið af ýmsum toga, t.d. milli stofnana, milli atvinnu- og áhugafólks, milli sveitarstjórnarfólks og menningargeirans.``

Þetta er kannski vandamálið sem hæstv. menntmrh. hefur þurft að glíma við og nefndin. Það er athyglisvert fyrir okkur þingmenn Reykjavíkur að horfa upp á þetta. Menn eru sammála í þingsalnum en þegar þeir eru komnir í hina dreifðu byggð þá eru þeir sammála um að vera ósammála.