Framlagning stjórnarfrumvarpa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:09:11 (1201)

2000-11-02 11:09:11# 126. lþ. 19.94 fundur 88#B framlagning stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vekja athygli á dagskrá þingsins í dag. Á dagskránni eru 15 þingmannamál sem er afskaplega ánægjulegt vegna þess að mörg eru það mikilvæg mál sem fá vonandi brautargengi þar sem þau komast svo tímanlega til nefndar sem raun ber vitni. En á dagskránni er eitt stjfrv. og ég spyr hvort forseti geri sér grein fyrir því að ríkisstjórnin kynnti 182 mál sem hún hyggst leggja fyrir á þessum vetri þegar mál voru kynnt með stefnuræðu forsrh. Einungis 18 þessara mála eru komin fram og helmingur þeirra verður kominn til nefndar í dag eða 10 og 8 bíða. Við erum með fund á morgun og væntanlega verða þessi stjfrv. ræddi þá ef ráðherrarnir mega vera því að koma til þings og mæla fyrir málum sínum. Þá höfum við væntanlega á morgun tæmt þau stjórnarmál sem fram eru komin.

Herra forseti. Á þessu þingi eru 196 mál komin fram. 18 þeirra eru frá ríkisstjórninni. Stjórnarandstaðan heldur uppi þinghaldinu á hv. Alþingi. Ríkisstjórnin undirstrikar enn á ný skort á samvinnu við þingið um bætt vinnubrögð. Það stefnir í það að enn á ný verðum við með jólakös á Alþingi, mál sem rutt er inn í þingið til nefndar og krafa gerð um að þau verði afgreidd fyrir jól. Ég spyr: Mun forseti taka þessi mál upp við ríkisstjórnina þannig að einhver möguleiki sé á vitlegum vinnubrögðum á hv. Alþingi fram til jóla?